Tónlistarmaðurinn Ed Sheeran reyndi að syngja dómara í Lundúnum á sitt band í réttarhöldum sem nú fara fram yfir honum. Söng hann hluta úr laginu Feeling Good eftir Ninu Simone og No Diggity með Blackstreet til að færa sannanir fyrir því að hann hafi ekki stolið hluta úr laginu Oh Why eftir Sami Chokri og sett hann inn í lagið sitt Shape of You.
Sheeran hefur þegar neitað því að hafa fengið hugmyndina frá Chokri en Chokri og Ross O'Donoghue höfðuðu mál gegn honum vegna lagsins.
„Ef þú syngur þessi lög í sama tón, þá hljóma þau eins,“ sagði Sheeran að söngnum loknum.
Lagið sem um ræðir, Shape of You, kom út árið 2017. Höfðuð Chokri og O'Donoghue málið gegn Sheeran árið 2018. Hagnaður hans af laginu var frystur þá, en talið er að hann hafi hagnast um 20 milljónir punda á laginu.