Ástarbréf Damons til Íslands

Damon Albarn lýkur tónleikarferð með Íslandstónverk sitt í Hörpu annað …
Damon Albarn lýkur tónleikarferð með Íslandstónverk sitt í Hörpu annað kvöld. mbl.is/Einar Falur Ingólfsson

„Þessu verkefni mun ljúka á sviðinu í Hörpu á föstudagskvöldið og þannig átti það vera. Þetta verk er hugleiðing mín um Ísland – og ástarbréf mitt til Íslands. Nú er ég að ljúka bréfinu og á tónleikunum í Hörpu má segja að ég komi því til skila, til ykkar,“ segir hinn heimskunni söngvari, lagahöfundur, tónskáld og nýbakaður íslenskur ríkisborgari Damon Albarn.

Hann var í gær staddur í Kaupmannahöfn þegar við töluðum saman, hélt þar í gærkvöldi næstsíðustu tónleika á ferðalagi sem mun þegar yfir lýkur á föstudag hafa leitt hann til ellefu evrópsksra borga þar sem hann hefur troðið upp í sumum rómuðustu tónleikahöllum álfunnar. Á tónleikunum hefur hann flutt ásamt hljómsveit verkið sitt The Nearer the Fountain, More Pure the Stream Flows. Það kom fyrr í vetur út á hans nýjustu hljómplötu, sem hefur fengið framúrskarandi dóma. Á plötunni eru 11 lög en á tónleikunum hefur hann flutt það í viðameiri útgáfu.

Damon hefur nú verið tíður gestur á Íslandi í tæplega þrjá áratugi og kveðst í þessu nýja verki, sem var samið að fullu hér á landi, vera innblásinn af náttúru Íslands og útsýninu út um gluggana á húsi hans í Staðahverfi í Reykjavík. Damon segist hlakka mikið til að enda tónleikaferðina og „pakka þessu persónulega verki saman“ í Eldborgarsal Hörpu á föstudag, með enn fleiri tónlistarmönnum en hafa komið að flutningnum hingað til.

„Það hefur verið algjörlega uppselt á alla tónleikana,“ segir Damon, …
„Það hefur verið algjörlega uppselt á alla tónleikana,“ segir Damon, sem hér má sjá á sviði í Fílharmóníuhöllinni í París, fyrr í vikunni.

Engir hávaðatónleikar

Í upphafi samtals okkar í síma kveðst Damon vonast til þess að þessum harða vetri fari að ljúka á Íslandi. „Ég heyri að það hafi snjóað mjög mikið. Einar Örn kom fram á tónleikum okkar í Filhamóníuhöllinni í París í vikunni og hann gaf mér skýrslu um snjóþungann í borginni,“ segir hann. Damon segir svo að tónleikaferðalagið hafi gengið gríðarlega vel.

„Ég hefði ekki getað óskað mér betri viðtaka. Gestirnir hafa verið einstaklega áhugasamir og hafa tekið tónlistinni vel – af viðtökunum í lok tónleika að dæma get ég fullyrt það. Þetta eru engir hávaðatónleikar, eins og þú getur ímyndað þér, enda varð verkið til við að eyða fjölda klukkustunda í að horfa út um gluggann heima í Reykjavík!“ Það kumrar í honum hláturinn.

Alls staðar uppselt

Damon segir auðfundið að fólk gleðjist mjög yfir því að geta aftur mætt í tónleikasali.

„Það hefur verið algjörlega uppselt á alla tónleikana. Svo til hvergi hafa verið neinar hömlur, svolitlar bara í Þýskalandi, en annars staðar hefur allt verið opið og fólk hefur snúið aftur á tónleika og notið þess. Ég vona að það verði sama sagan í Reykjavík.

Tónleikarnir í Hörpu verða þeir síðustu á ferðalaginu. Þar munum við flytja verkið nánast eins og ég sá það upphaflega fyrir mér, þegar ég var að semja það áður en veirufaraldurinn skall á. Mér finnst verkið hafa þanist út núna á tónleikaferðalaginu og það mun svo springa út í sinni fullkomnustu mynd í Hörpu.“

Þegar Damon er spurður að því hvort hann flytji með hljómsveitinni lögin eins og þau hljóma á plötunni, þá neitar hann því, og segir verkið allt mun meira núna. „Lögin sem eru á plötunni eru vissulega til staðar en líka mikið veður – þetta er mikið stemningsferðalag. Í raun hef ég leitt tónlistina að því sem ég hugðist upphaflega gera, í samfelldu tónverki, áður en heimurinn breyttist fyrir tveimur árum.“

Í upphaflegu formi í Hörpu

Skömmu áður en faraldurinn skall á var blaðamaður viðstaddur æfingu í stofu Damons í Reykjavík, með fjölskipaðri hljómsveit sem æfði upp tónverkið eins og hann hugðist meðal annars flytja það nokkru síðar á tónleikum á Listahátíð í Reykjavík. Meðan á faraldrinum stóð vann Damon áfram í tónverkinu og leysti það upp í lögin sem eru á plötunni.

„En þarna heima í stofu í Reykjavík varð verkið til og í Hörpu verður það snúið í sitt upprunalega form. Fyrir tónleikana slást í hópinn sumir af klassísku hljóðfæraleikurunum sem voru á æfingum með upprunalega mynd verksins áður en faraldurinn skall á.

Flutningurinn í Hörpu verður eins nærri því sem ég ætlaði upphaflega að gera og unnt verður!“

Nú á Íslandi sem ríkisborgari

Er mikilvægt fyrir Damon að enda ferðalagið með íslenska verkið sitt á Íslandi?

„Heldur betur!“ svarar hann. „Og þetta verða fyrstu tónleikar mínir á Íslandi sem íslenskur ríkisborgari. Mér finnst það frábært. Síðustu vikur hef ég ferðast látlaust um á íslenska vegabréfinu mínu; það er enginn dramatískur munur frá því að nota breska vegabréfið mitt en stundum þarf ég að fara í aðra röð... Svo er gríðarlega langt síðan ég hélt síðast tónleika á Íslandi, ég held það hafi ekki gerst síðan 1997, sem mér finnst stórfurðulegt. Ég hef komið fram í einhverri mýflugumynd með vinum mínum á Íslandi en ekki í eigin nafni síðan þá, þegar ég var á magnaðri tónleikaferð um Ísland, Færeyjar og Grænland.“

Lúxusútgáfu plötunnar The Nearer the Fountain, More Pure the Stream Flows fylgdi verkið „Huldufólk: The Whether People“, sem Einar Örn Benediktsson og Kaktus sonur hans sömdu og hljóðrituðu með Damon. Hann segir Einar Örn hafa staðið sig vel á tónleikunum í París í vikunni og hann muni einnig troða upp í Hörpu. Og hann ítrekar að tónkeikarnir í Hörpu muni verða einstakir og ólíkir öllum hinum fyrri. „Ég vona að fólk mæti og upplifi verkið og þennan lokaflutning,“ segir hann. Og að fólk skuli ekki treysta á að hann geti snúið aftur hér á svið eftir 25 ára hlé.

„Eftir önnur 25 ár verð ég orðinn 79 ára gamall. Það er ekki víst að ég geti þá staðið lengur á sviði,“ segir hann og hlær hjartanlega.

„Þetta er erfið vinna – sem er hið besta mál,“ …
„Þetta er erfið vinna – sem er hið besta mál,“ segir tónlistarmaðurinn.

Slappar af heima í Reykjavík

Mun Damon fara eftir tónleikana í Hörpu heim í húsið sitt í Reykjavík, leggjast upp í sófa og slappa af?

„Já. Ég hef nokkra daga til að taka það rólega heima. Svo þarf ég að ýta aftur af stað óperu sem ég gerði í París“ – hún var frumflutt vorið 2020 og fjallar um samskipti Afríku og Evrópu – „fara svo í stutt verkefni í Kaliforníu áður en ný heimstónleikaferð með Gorillaz hefst í apríl. Fyrstu tónleikanir verða í Montevideo, af öllum stöðum.

Nú er komið að því að flestir tónlistarmenn eru aftur lagstir í ferðalög, eru komnir út á vegina að nýju. Nú er komið að því að standa við öll loforðin sem við tónlistarmenn höfum gefið síðustu þrjú árin en ekki getað staðið við; mér heyrist allt vera brjálað hjá okkur öllum að gera það sem eftir lifir ársins, fólk er að spila úti um allt.“

Og Damon segist gleðjast yfir því að vera aftur kominn á ferðina, að spila tónlist sína fyrir tónleikagesti.

„Maður verður að koma sér í rétta hugarástandið og vera mjög agaður ef til stendur að koma fram á fjölda tónleika á stuttum tíma. Það þarf að gæta að röddinni og andlegu heilbrigði, borða vel, en samt ekki gleyma því að njóta lífsins.

Þetta er erfið vinna – sem er hið besta mál. Listamenn þurfa að leggja mikið á sig og vinna af kappi um þessar mundir, margir lögðust í djúpt þunglyndi á síðustu árum og andinn missti flugið hjá mörgum. Það er svo mikilvægt að rífa sig í gang aftur.“

Damon er auðheyrilega djúpt snortinn yfir fegurð og áhrifamætti tónlistarsala sem hann hefur komið fram í á síðustu vikum. „Nú síðast í Elbphilharmonie í Hamborg sem er stórkostlegur salur! Hljómburðurinn er magnaður,“ segir hann. „Þar áður vorum við í Concertgebeouw í Amsterdam. Ég er ótrúlega lánsamur að fá að koma fram í slíkum húsum. Mér finnst ég vera orðinn fullorðinn – þetta eru forréttindi.“ Og svo kveður Damon Albarn með hjartanlegu, íslensku bless!

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það eru oft einföldustu hlutir sem vefjast mest fyrir manni. Ef þú gengur fram af þeim munu þeir svara þér fullum hálsi. Mundu bara að ekki er allt sem sýnist.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Torill Thorup
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það eru oft einföldustu hlutir sem vefjast mest fyrir manni. Ef þú gengur fram af þeim munu þeir svara þér fullum hálsi. Mundu bara að ekki er allt sem sýnist.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Torill Thorup