Söngvakeppni RÚV fór fram í gær og að sögn Rúnars Freys Gíslasonar, umsjónarmanns keppninnar, hafa nokkrir keppendur auk kjósenda gert athugasemdir við símakosninguna.
Þá aðallega að sum atkvæðin virtust ekki fara í gegn. Rúnar segir svipaðar athugasemdir berast árlega en þetta sé alltaf tekið alvarlega og rannsakað.
„Við ræddum þetta við Vodafone sem er fyrirtækið sem sér um símakosninguna fyrir okkur og hefur gert síðastliðin ár og þeir hafa tjáð okkur að þeir hafa rannsakað málið.“
„Bæði fylgdust þeir með kosningunni í gær og við nánari greiningu núna segja þeir að það sé ekki að sjá að það hafi verið nein vandamál við afgreiðslu símtala eða SMS inni á kosningakerfið sjálft,“ segir Rúnar og bætir því við að svarhlutfall símtala hafi verið um 99,6%.
Aðspurður segir Rúnar sigur Siggu, Betu og Elínar hafa verið afgerandi og því ekki ástæða til þess að rannsaka eitt og eitt atkvæði þar sem hlutfall frávísana var aðeins 0,4%.
Hann segir þó á að símafyrirtækið hafi bent þeim á að þeir sem eru með svokölluð frelsisnúmer geti ekki kosið nema þeir séu með inneign þar sem hvert atkvæði kostar 155 krónu.
„Ég er búinn að vera að vinna við Söngvakeppnina í sex ár og þetta er bara árlegt, það er alltaf einhverjir á þessum mestu álagspunktum sem ná ekki í gegn. Símafyrirtækið fullyrðir að ef allt er í lagi með símann að það nái í gegn á endanum þó að í nokkrar sekúndur sé álagið þannig að það trufli kerfið.“