Árið 1987 kom út kvikmyndin Dirty Dancing, mynd sem gerð var fyrir lítið fé. Öllum að óvörum sló hún í gegn svo um munaði, en í henni leikur Jennifer Grey unglingsstúlkuna Frances „Baby“ Houseman á móti Patrick Swayze, sem leikur Johnny Castle, nokkuð eldri danskennara í sumarbúðum þar sem Baby var stödd ásamt fjölskyldu sinni. Eldheit og forboðin ást kviknar þar á milli eins og allir muna.
Hver man ekki eftir setningunni: Nobody puts Baby in the corner!
Jennifer Grey var tilnefnd til Golden Globe-verðlauna sem besta aðalleikkona fyrir hlutverk sitt í myndinni. Unglingar þessa tíma leigðu Dirty Dancing á vídeóleigum borgarinnar og horfðu á hana aftur og aftur, en myndin varð á þessum tíma fyrsta vídeómyndin til að seljast í yfir milljón eintökum.
En hver er Jennifer Grey og hvað varð um hana; hvar er Baby?
Grey er fædd árið 1960, dóttir leikarans og óskarsverðlaunahafans Joel Grey og Jo Wilder, leik- og söngkonu. Grey er alin upp á Manhattan þar sem hún stundaði leiklistarnám og vann sem þjónustustúlka á veitingastað á meðan hún beið eftir stóra tækifærinu. Hún lék í nokkrum auglýsingum strax nítján ára gömul en landaði svo litlum hlutverkum í Red Dawn og The Cotton Club. Hún varð fyrst þekkt þegar hún lék öfundsjúku systurina í Ferris Bueller’s Day Off sem varð til þess að hún landaði hlutverki í Dirty Dancing, mynd sem átti eftir að skjóta henni upp á stjörnuhimininn, að minnsta kosti um stund.
Eins og gjarnt er með fræga fólkið leggst það undir hnífinn og það gerði einmitt Grey. Hún lét laga á sér nefið og gjörbreyttist í kjölfarið, svo mikið að bestu vinir hennar þekktu hana varla. Gamla nefið, sem hafði verið sterkt karaktereinkenni og gerði hana sjarmerandi, var nú horfið. Sjálf sagði Grey eftir aðgerðirnar, sem urðu tvær: „Ég lagðist undir hnífinn fræg leikkona og kom út nafnlaus. Það var líkt og ég væri komin í vitnavernd eða væri orðin ósýnileg.“
Grey hefur haldið áfram á leiklistarbrautinni allar götur síðan frægðin bankaði upp á en ekki verið sérlega áberandi. Hún hefur birst í bæði kvikmyndum og sjónvarpsþáttum, en auk þess tók hún þátt í Dancing with the Stars árið 2010.
Af ástarlífi og einkalífi Grey má nefna að árið 1987 átti hún í ástarsambandi við Matthew Broderick og lenti parið í bílslysi á Norður-Írlandi þegar bíll þeirra fór yfir á öfugan vegarhelming og beint á bifreið írskra mæðgna sem dóu samstundis. Broderick var við stýrið og fékk vægan dóm fyrir gáleysi við akstur. Stuttu eftir slysið var Dirty Dancing frumsýnd sem skaut henni upp á stjörnuhimininn en Grey naut ekki frægðarinnar vegna sorgar og sektarkenndar og hélt sig frá leiklistinni um nokkra hríð.
Seinna var Grey í samböndum við Michael J. Fox, Johnny Depp og George Stephanopoulos, aðstoðarmann Clintons, ekki þó samtímis. Hún giftist síðar leikaranum Clark Gregg, sem lék í Avengers, og eiga þau eina dóttur, en þau skildu nýlega. Grey starfar enn sem leikkona, í sjónvarpi og kvikmyndum, en í dag í minni hlutverkum.