Bandaríska poppstjarnan Katy Perry er væntanleg til landsins en þó ekki í þeim erindagjörðum að syngja fyrir landsmenn. Norwegian Cruise line tilkynnti í gær að Perry verði guðmóðir Norwegian Prima og muni gefa skipinu nafn, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Nú vill svo til að skipinu verður gefið nafn við Skarfabakka í Reykjavík í ágúst. Þar mun Katy Perry leika hlutverk og samkvæmt tilkynningunni mun hún troða upp þótt ekki sé farið nánar út í þá sálma. Perry er 37 ára gömul og sló í gegn fyrir alvöru árið 2008 með laginu I Kissed a Girl. Hún er einnig þekkt fyrir dómarastörf í sjónvarpsþættinum American Idol.