Þau eru dáin, þau eru dáin!

Randy Rhoads gat látið gítarinn tala tungum.
Randy Rhoads gat látið gítarinn tala tungum. Flickr.com

Fjörutíu ár eru um helgina liðin frá því að gítarleikarinn Randy Rhoads fórst í flugslysi í Flórída, aðeins 25 ára að aldri. Hann var mörgum harmdauði en hafði djúpstæð áhrif á stuttum ferli. 

Eftir velheppnað gigg í Knoxville Civic Coliseum í Tennessee að kvöldi 18. mars 1982 héldu málmgoðið Ozzy Osbourne og band hans sem leið lá með tónleikarútu sinni til Orlando í Flórída, þar sem troða átti upp á rokkhátíð nokkurri. Ozzy sparaði ekki áfengið við sig á leiðinni, fremur en fyrri daginn, sem varð til þess að gítarleikari bandsins, Randy Rhoads, spjaldaði hann um nóttina: „Þú veist að þú átt eftir að drepa þig á þessu, dag einn.“ Síðan tóku þeir félagar á sig náðir. Ozzy óraði ekki fyrir því þá en þetta urðu síðustu orðin sem hann heyrði af vörum Rhoads.

Ozzy og Sharon Osbourne, Zakk Wylde, Yngwie Malmsteen, Rudy Sarzo …
Ozzy og Sharon Osbourne, Zakk Wylde, Yngwie Malmsteen, Rudy Sarzo og fleiri gleðjast með Delores Rhoads, móður Randys, þegar gítarleikarinn var tekinn inn í Hollywood Rockwalk 22 árum eftir dauða sinn, árið 2004. AFP/Frazer Harrison


Tók vélina ófrjálsri hendi

Ekið var alla nóttina en komnir til Flórída numu menn staðar í Leesburg árla morguns til að laga loftræstinguna í rútunni sem hafði bilað. Landareignin var í eigu sérleyfisbílafyrirtækisins Calhoun Brothers og þar var að finna flugbraut fyrir litlar flugvélar og þyrlur. Rútubílstjórinn, Andrew Aycock, sá sér leik á borði en hann bjó að einkaflugmannsprófi enda þótt hann hefði ekki endurnýjað réttindin í þrjú ár.

Aycock tók Beechcraft Bonanza-vél sem var á brautinni ófrjálsri hendi og flaug nokkra hringi yfir svæðið með Don Airey hljómborðsleikara og Jack Duncan tónleikastjóra. Einhverjum þótti hann fljúga óþægilega nálægt rútunni, þar sem flestir úr hópnum sváfu á sínu græna. Tilgangurinn var víst að vekja Tommy Aldridge trommuleikara.

Förðunarmeistari hópsins, Rachel Youngblood, vildi líka komast í stutt útsýnisflug og úr varðað fyrrnefndur Randy Rhoads slóst í hópinn. Hann var ákaflega flughræddur en eftir að Aycock hafði fullvissað hann um að hann myndi fara varlega vegna þess að hin 58 ára gamla Youngblood væri veil fyrir hjarta sló Rhoads til. Hann langaði að taka loftmyndir og senda móður sinni. Rhoads reyndi að fá Rudy Sarzo bassaleikara með sér en hann vildi frekar sofa aðeins lengur.

Randy Rhoads er enn þá vel þokkaður; 40 árum eftir …
Randy Rhoads er enn þá vel þokkaður; 40 árum eftir dauða sinn. AFP


Létust samstundis

Að sögn sjónarvotta var Aycock staðráðinn í að „vekja“ rútuna. Flaug í tvígang mjög nærri henni og reyndi í þriðja sinn. Þá vildi hins vegar ekki betur til en að hann rak annan vænginn í þak rútunnar með þeim afleiðingum að hann klofnaði í tvennt og flugmaðurinn missti alla stjórn á vélinni. Hún rakst í framhaldinu á nærliggjandi tré áður en hún hrapaði á bílskúr óðals í grenndinni, þar sem hún var í ljósum logum. Rhoads, Youngblood og Aycock létust öll samstundis. Lík þeirra voru svo illa leikin eftir brunann að styðjast þurfti við tannlæknaskýrslur og persónulega skartgripi þeirra til að bera kennsl á þau. „Þau voru öll í bútum, líkamspartar úti um allt,“ segir Sharon Osbourne, eiginkona Ozzys, í endurminningum sínum, en hún vaknaði þegar vélin rakst á rútuna.

Don Airey varð vitni að slysinu – og slapp raunar með skrekkinn. Hann stóð þar álengdar og tók ljósmyndir sem hann ætlaði að gefa Rhoads. Honum fannst eins og menn væru að takast á um borð; vængir vélarinnar blöktu ótt og títt og um tíma varð hún hornrétt, aðeins um mannshæð frá jörðu. Airey lagði frá sér myndavélina og náði með naumindum að henda sér niður áður en vélin hæfði hann. Andartaki síðar sá hann hana út undan sér rekast í rútuna.
Rudy Sarzo rifjar í endurminningum sínum upp að hann hafi vaknað við áreksturinn og séð Jack Duncan æða um í angist sinni og hrópa: „Þau eru dáin, þau eru dáin!“

Tommy Aldridge greip slökkvitæki og hljóp í átt að brennandi flakinu – en fékk ekki við neitt ráðið.

Nánar er fjallað um líf og dauða Randys Rhoads í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þrá eftir fullkomnun og óraunsæjar áætlanir eiga hug tvíburans allan um þessar mundir. Og það sem meira er, þetta er ekkert mál fyrir þig! Oftast viltu nefnilega það sama.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Torill Thorup
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þrá eftir fullkomnun og óraunsæjar áætlanir eiga hug tvíburans allan um þessar mundir. Og það sem meira er, þetta er ekkert mál fyrir þig! Oftast viltu nefnilega það sama.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Torill Thorup