„Þegar maður er að gera mynd og leikararnir verða ástfangnir þá leggst maður bara á bæn og vonar að upp úr slitni áður en tökum lýkur,“ segir bandaríski kvikmyndaleikstjórinn Adrian Lyne í samtali við breska blaðið The Independent en aðalleikararnir í nýjustu mynd hans, Ben Affleck og Ana De Armas, fóru að rugla saman reytum meðan á gerð myndarinnar stóð.
Hann viðurkennir þó að neistaflugið á milli Affleck og De Armas hafi komið sér vel enda er myndin, Deep Water, erótískur sálfræðitryllir, rétt eins og frægasta mynd Lynes, Fatal Attraction. Sambandi leikaranna tveggja er lokið í dag og víst litlir kærleikar með þeim.