Bandaríska söngvakeppnin, sem gerð er að fyrirmynd Eurovision söngvakeppninnar, hófst í gærkvöldi. Keppnin er í átta hlutum og fer fram á mánudagskvöldum en lokakeppnin fer fram hinn 9. maí, degi áður en fyrra undankvöld Eurovision verður haldið í Tórínó á Ítalíu.
Ríkissjónvarpið hefur tryggt sér sýningarréttinn að Bandarísku söngvakeppninni og verður keppnin sýnd á laugardagskvöldum klukkan 19:45.
Kynnar keppninngar eru Kelly Clarkson og Snoop Dogg. Alls munu 56 ríki taka þátt í keppninni. Öll 50 ríki Bandaríkjanna, Washington D.C. og fimm yfirráðasvæði Bandaríkjanna sem eru bandarísku Samóa, Gvam, Norður-Maríanaeyjar, Púerto Ríkó og bandarísku Jómfrúareyjarnar.
Alls kepptu 11 lög í keppninni sem fór fram í gær. Fjögur lög komast áfram af þeim, eitt er valið af 56 manna dómnefnd en hin þrjú lögin verða kosin í símakosningu sem opin er frá mánudegi fram á miðvikudagsmorgun. Rhode Islands komst áfram beint í undanúrslitin en enn er verið að kjósa um hin þrjú lögin.
Hér fyrir neðan má sjá Hueston flytja sigurlagið Held on Too Long.