„Sjokk þegar maður fær Schock“

Víkingur Heiðar Ólafsson
Víkingur Heiðar Ólafsson mbl.is/Eggert

„Ég vissi auðvitað af þessum verðlaunum, en datt ekki í hug að fá þau fyrr en kannski í fyrsta lagi eftir 40 ár, ef ég þá fengi þau. Ég varð því orðlaus þegar ég fékk símtalið þar sem mér var tilkynnt þetta. En það er kannski viðeigandi að fara í smá sjokk þegar maður fær Schock-verðlaunin,“ segir tónlistarmaðurinn Víkingur Heiðar Ólafsson.

Fyrr í dag var tilkynnt að hann er einn fjögurra verðlaunahafa Rolf Schock-verðlaunanna í ár. Verðlaunin, sem að jafnaði hafa verið veitt annað hvort ár síðan 1993, eru veitt í tónlist, heimspeki, stærðfræði og sjónlist. Aðrir verðlaunahafar ársins eru heimspekingurinn David Kaplan, stærðfræðingurinn Jonathan Pila og arkitektinn Rem Koolhaas. Hver verðlaunahafi hlýtur 500 þúsund sænskar krónur eða 6,8 milljónir íslenskra króna.

Snertir hjartastreng

„Það skemmtilega við þessi verðlaun eru hvað þau eru frumleg. Rolf Schock var heimspekingur, rökfræðingur, ljósmyndari og mikill renaissance-maður. Hann fæddist í Frakklandi 1933, en foreldrar hans voru þýskir. Hann bjó og nam í Svíþjóð áður en hann settist að í Bandaríkjunum. Þegar hann lést í bílslysi 1986, aðeins 53 ára að aldri, kom í ljós að hann hafði efnast töluvert án þess að berast á og skildi eftir sig erfðaskrá þar sem stofnað var til þessara verðlauna, sem fyrst voru afhent 1993,“ segir Víkingur, en það er Sænska akademían í tónlist, heimspeki, stærðfræði og sjónlist sem velja verðlaunahafana hverju sinni. „Mér þykir afar vænt um að fá verðlaun sem kennd eru við þennan hógværa mann sem skilur eftir sig svona fallega arfleifð.“

Víkingur Heiðar Ólafsson í Hörpu.
Víkingur Heiðar Ólafsson í Hörpu. mbl.is/Árni Sæberg

Víkingur Heiðar er fyrsti Íslendingurinn sem hlýtur þessi verðlaun. Meðal þeirra sem hlotið hafa Schock-verðlaunin í tónlist á undan honum eru ungverska tónskáldið og píanóleikarinn György Kurtág sem hlaut þau 2020, kanadíska söngkonan og stjórnandinn Barbara Hannigan sem hlaut þau 2018, bandaríski saxófónleikarinn og tónskáldið Wayne Shorter sem hlaut þau 2017, sænska söngkonan Anne Sofie von Otter sem hlaut þau 2003, bandaríski strengjakvartettinn Kronos Quartet árið 1999 og ungversk-austurríska tónskáldið György Ligeti sem hlaut þau 1995.

„Fyrri verðlaunahafarnir er fólk sem ég lít mikið upp til. Það snertir því hjartastreng að vera tekinn inn í þennan hóp. Sem dæmi er György Kurtág einn af mínum uppáhalds tónlistarmönnum sem ég hitti í Búdapest í haust og átti ótrúlega stund með honum,“ segir Víkingur og tekur fram að það sem allir fyrri verðlaunahafar eiga sameiginlegt er að vera tónlistarfólk sem farið hafi sína leið og verið óhrætt við að endurnýja sig í listinni. „Það segir mér að ég sé mögulega á einhverri réttri leið með það sem ég er að gera.“

Árangursríkt brautryðjandastarf 

Í umsögn Sænsku akademíunnar í tónlist segir að Víkingur hljóti viðurkenninguna: „fyrir árangursríkt brautryðjandastarf í því að þróa og styrkja klassíska tónlist. Víkingur er einn frumlegasti og mest skapandi tónlistarmaður samtímans. Með hverju tónverki skapar hann nýjan heim sem tjáir bæði dýpt og andagift sem skilur eftir einstök hughrif hjá hlustandanum.“

Inntur viðbragða við þessari umsögn segist Víkingur orða vant yfir þessu mikla lofi. „Mér þykir mjög vænt um þessa umsögn, þó ég myndi aldrei sjálfur lýsa sjálfum mér svona. Það gleður mig að tekið sé eftir því sem ég er að gera utan tónleikasviðsins,“ segir Víkingur en í umsögninni er sérstaklega minnst á tónlistarmiðlum hans í bæði útvarpi og sjónvarpi. „Það eru til svo margar leiðir til að miðla tónlist sem 21. öldin hefur fært okkur.“

Plötubréf til fyrri verðlaunahafa 

Sem fyrr segir verða verðlaunin afhent í Stokkhólmi 24. október. „Ég á að vera að spila í Köln með Þjóðarhljómsveit Tékklands, sem er frábær sveit. Tónleikarnir eru hluti af lengra tónleikaferðalagi með sveitinni og ég er að vonast til þess að hægt sé að breyta prógramminu þannig að ég nái að skreppa til Svíþjóðar,“ segir Víkingur og bendir á að skipuleggjendur verðlaunanna hafi valið að afhenda verðlaunin á mánudegi þar sem það sé ekki algengur tónleikadagur. „Mig langar að mæta því mig langar svo að hitta heimspekinginn David Kaplan, stærðfræðinginn Jonathan Pila og arkitektinn Rem Koolhaas,“ segir Víkingur og tekur fram að arkitektur sé sérstakt áhugamál hjá honum. „Það er svo gaman og áhugavert að hitta fólk úr ólíkum geirum.“

Víkingur Heiðar Ólafsson er á leið í upptökur í næsta …
Víkingur Heiðar Ólafsson er á leið í upptökur í næsta mánuði. mbl.is/Einar Falur

Víkingur hefur á ferli sínum þegar hlotið mörg virtustu verðlaunin á sviði tónlistar og komið fram í öllum merkilegustu tónlistarhúsum heims. Það liggur því við að spyrja hvaða markmið hann geti næst sett sér á ferlinum. „Það góða fyrir mig er að ég er alltaf að vinna með mönnum eins og Bach og Mozart. Það er alveg sama hvaða verðlaun maður fær, því í samanburðinum við þá er maður alltaf frekar lítill. Ég upplifi þetta ekki sem áfangasigra eða toppa því ég er alltaf að stefna að næsta verkefni,“ segir Víkingur og nefnir sem dæmi að í næsta mánuði sé hann á leið í upptökur á næstu plötu sem er væntanleg í nóvember. „Þetta er mjög persónuleg og fjölbreytileg plata, sem mun meðal annars innihalda íslenska tónlist. Ég má lítið segja um hana ennþá, en get þó sagt að hún tengist náið einum þeirra sem hlotið hafa Schock-verðlaunin á undan mér. Platan fjallar eiginlega um þann tónlistarmann og er nokkurs konar plötubréf til hans,“ segir Víkingur.

Dreymir um að þróa upptökuferlið

Spurður um langtímamarkmið sín segist Víkingur eiga mikilvægar fyrirmyndir í fyrri verðlaunahöfum Schock-verðlaunanna sem eigi það sameiginlegt að hafa endurnýjað sig og láti ekki skilgreina sig innan of þröngs ramma. „Mér finnst svo gaman af listafólki sem er sífellt að nema ný lönd bæði fyrir sig og áhorfendur sína. Í þeim efnum horfi ég til listamanna á borð við Stravinskíj og Picasso, sem meðvitað ræktuðu með sér forvitnina, sem er forsenda þess að geta endurnýjað sig og haldið áfram að uppgötva nýja hluti allt lífið,“ segir Víkingur og nefnir í því samhengi að eitt af því sem hann langi til að vinna meira með og þróa sé upptökuferlið.

Víkingur Heiðar segir mikilvægt að rækta með sér forvitnina.
Víkingur Heiðar segir mikilvægt að rækta með sér forvitnina. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mig dreymir um að koma mér upp mínu eigin upptökustúdíói þar sem ég geti verið að taka upp tónlist í lengri tíma í stað þess að vera bundinn af því að taka upp í tilteknum sal í fimm daga. Það er enginn sem vinnur klassíska tónlist á svona löngum tíma, en píanóleikarinn Glen Gould komst eiginlega næst því. Mig dreymir um að geta átt heimilislegra samband við hljóðnemann,“ segir Víkingur og bendir á að það taki alltaf ákveðinn tíma að mynda trúnaðarsamband við hljóðnemann í upptökum.

Hlustendur gætu breytt túlkuninni í rauntíma

„Mig langar að breyta því og í framhaldinu að miðla þeim upptökum á nýjan hátt,“ segir Víkingur og nefnir í því samhengi hugmyndir um gagnvirka miðlun. „Mig dreymir um að gera upptökur sem gera hlustendum kleift að breyta stillingunni og með því breyta túlkun verksins í rauntíma. Þetta er auðvitað framtíðartónlist sem vonandi getur raungerst á næstu 10-120 árum. En mig hefur lengi dreymt um það að fólk geti fengið tilfinningu fyrir hlutverki túlkandans í tónlist og þannig skynjað betur hvað það hlutverk er skapandi.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það eru oft einföldustu hlutir sem vefjast mest fyrir manni. Ef þú gengur fram af þeim munu þeir svara þér fullum hálsi. Mundu bara að ekki er allt sem sýnist.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Torill Thorup
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það eru oft einföldustu hlutir sem vefjast mest fyrir manni. Ef þú gengur fram af þeim munu þeir svara þér fullum hálsi. Mundu bara að ekki er allt sem sýnist.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Torill Thorup