Taylor Hawkins, trommuleikari bandarísku rokkhljómsveitarinnar Foo Fighters, er látinn. Hawkins var einungis 50 ára gamall þegar hann lést en hljómsveitin hans tilkynnti um andlátið á samfélagsmiðlum fyrr í morgun.
Segjast liðsmenn Foo Fighters „hryggir yfir þessum hörmulega og ótímabæra missi.“
Hawkins lék með Foo Fighters í rúma tvo áratugi en hann gekk til liðs við hljómsveitina skömmu eftir að hún lauk gerð plötunnar The Colour and the Shape árið 1997.
Ekki hefur verið tilkynnt opinberlega um dánarorsök.
„Tónlistarandi hans og smitandi hlátur munu lifa með okkur að eilífu,“ sagði hljómsveitinn í fyrrnefndri yfirlýsingu þar sem hún sendi samúðarkveðjur til eiginkonu Hawkins og tveggja barna hans sem eru á unglingsaldri. Biður hljómsveitin um að þau fái að takast á við þá sorg sem andláti Hawkins fylgir í friði.
Mikill fjöldi fólks hefur harmað andlát Hawkins.
Enski tónlistarmaðurinn Ozzy Osbourne sagði t.a.m. að Hawkins hefði verið magnaður tónlistarmaður og frábær manneskja.
Bandaríska tónlistarkonan Miley Cyrus, sem á að spila í dag á sömu tónlistarhátíð og Foo Fighters áttu að koma fram á, sagði að hún myndi helga Hawkins sína tónleika á hátíðinni.
Ringo Starr, fyrrverandi trommuleikari Bítlanna, sendi fjölskyldu Hawkins samúðarkveðjur og bað guð um að blessa hann.
Fréttin hefur verið uppfærð