Andlát Taylors Hawkins, trommuleikara rokkhljómsveitarinnar Foo Fighters, kom mörgum að óvörum og hafa margir vottað honum virðingu sína á samfélagsmiðlum, til að mynda Jill Biden forsetafrú Bandaríkjanna og íslenska þungarokkshljómsveitin Dimma.
Egill Örn Rafnsson, trommari Dimmu, segir Hawkins hafa haft mikil áhrif á sig.
„Foo Fighters er ein af þessum hljómsveitum sem eiga stóran stað í hjarta mínu,“ segir Egill í samtali við mbl.is. „Þá sérstaklega í gegnum unglingsárin mín.“
Egill segist hafa orðið svo lánsamur að hafa fengið að sjá sveitina spila á tónleikum nokkrum sinnum og í hvert skipti hafi hann verið mjög heillaður af Hawkins, enda sjálfur trommari.
„Taylor Hawkins var ekki bara einn af betri rokktrommurum sögunnar heldur hafði hann svo fallega útgeislun sem lét mér alltaf líða eins og að við værum vinir.“
Því hafi fréttir af fráfalli Hawkins tekið á.
„Þegar ég heyrði þessar fréttir í fyrradag þá leið mér að einhverju leyti eins og að ég hafi misst vin.“
„Ég las áðan færslu þar sem [trommari hljómsveitarinnar Metallica] Lars Ulrich var að tala um samtal sem átti sér stað í seinustu viku á milli sín og Taylor Hawkins,“ segir Egill.
Hawkins hafi sagt „trommarar standa saman“ eða „drummers stick together“. Hvort orðið „stick“ sé skýrskotun í trommukjuða, segir Egill að megi liggja milli hluta, þó liggi fyrir að trommarasamfélag heimsins hafi misst eina af sínum skærustu stjörnum.
„En tónlist er tímalaus og takturinn lifir áfram. Far vel kæri vinur og þakka þér fyrir að vera falleg fyrirmynd.“