Ópíóðar, marijúana og önnur eiturlyf fundust í blóði Taylor Hawkins, trommuleikara Foo Fighters, áður en hann lést. Þetta segja rannsóknarlögreglumenn í Kólumbíu.
Eiturefnaskýrsla sýndi að tíu efni voru í blóði hans, þar á meðal þunglyndislyf.
BBC greinir frá.
Lögreglumenn á svæðinu segja að sjúkrabíll hafi verið sendur til Hawkins eftir að karlmaður hringdi í neyðarlínuna vegna brjóstverkja. Þegar viðbragðsaðila bar að garði brást hann ekki við endurlífgunartilraunum og var úrskurðaður látinn á staðnum, að sögn heilbrigðisyfirvalda í Bogotá.
Skrifstofa ríkissaksóknarar í Bogotá er enn að rannsaka málið og mun veita frekari upplýsingar síðar.
Aðdáendur Foo Fighters sem voru í Bogotá til þess að sjá hljómsveitina spila hafa lagt blóm fyrir utan hótelið.
Foo Fighters tilkynntu um andlátið á samfélagsmiðlum í gærmorgun. Sögðust hjómsveitarmeðlimirnir „hryggir yfir þessum hörmulega og ótímabæra missi.“
Hawkins lék með Foo Fighters í rúma tvo áratugi en hann gekk til liðs við hljómsveitina skömmu eftir að hún lauk gerð plötunnar The Colour and the Shape árið 1997.
„Tónlistarandi hans og smitandi hlátur munu lifa með okkur að eilífu,“ sagði hljómsveitinn í fyrrnefndri yfirlýsingu þar sem hún sendi samúðarkveðjur til eiginkonu Hawkins og tveggja barna hans sem eru á unglingsaldri. Biður hljómsveitin um að þau fengju að takast á við þá sorg sem andláti Hawkins fylgdi í friði.