Grínistinn Chris Rock ætlar ekki að kæra leikarann Will Smith eftir uppákomuna á Óskarnum. Smith hlJóp upp á svið og sló Rock eftir að grínistinn sagði brandara um hárleysi Jada Pinkett Smith.
Lögreglan í Los Angeles staðfesti við Variety að Rock ætlaði ekki leggja fram kæru. Í formlegri tilkynningu frá lögreglunni segir að lögreglan sé meðvituð um atvik á milli tveggja einstaklinga á Óskarsverðlaunahátíðinni. Atvikið snúist um að einn aðili hafi slegið hinn aðilann. Í tilkynningunni segir að sá sem var kýldur hafi neitað að leggja fram kæru. Það kemur þó ekki í veg fyrir að það breyist seinna meir.
Kveikjan að uppþotinu var brandari Rock en hann vísaði til eiginkonu Smiths, leikkonunnar Jödu Pinkett Smith, sem G.I. Jane, sem er persóna í samnefndri kvikmynd frá 1997. Leikkonan Demi Moore fer þar með hlutverk G. I. Jane en hún er sköllótt.
Pinkett Smith er sköllótt um þessar mundir. Leikkonan hefur glímt við sjálfsofnæmissjúkdóminn alopecia sem veldur meðal annars skallablettum. Ákvað hún því að krúnuraka sig og hefur borið höfuðið hátt á rauða dreglinum síðan.