Sigur leikarans Wills Smiths hefur fengið blendnar viðtökur. Smith hlaut verðlaun í flokki leikara í aðalhlutverki fyrir hlutverk sitt í kvikmyndinni King Richard. Stuttu áður en tilkynnt var um sigurvegara í flokknum hafði Smith hlaupið upp á svið og slegið leikarann Chris Rock.
Margir hafa gagnrýnt athæfi leikarans en flestir fjölmiðlar höfðu spáð því að hann myndi hreppa verðlaunin í ár. Er þetta í fyrsta skipti á þrjátíu ára ferli Smith sem hann hlýtur Óskarsverðlaun.
Kveikjan að uppþotinu var brandari Rock en hann vísaði til eiginkonu Smiths, leikkonunnar Jödu Pinkett Smith, sem G.I. Jane, sem er persóna í samnefndri kvikmynd frá 1997. Leikkonan Demi Moore fer þar með hlutverk G. I. Jane en hún er sköllótt.
Pinkett Smith er einnig sköllótt um þessar mundir. Leikkonan hefur glímt við sjálfsofnæmissjúkdóminn alopecia sem veldur meðal annars skallablettum. Ákvað hún því að krúnuraka sig og hefur borið höfuðið hátt á rauða dreglinum síðan.
Grín Rocks virðist hins vegar farið yfir mörk Smith sem brást við með ofbeldi. Þegar hann tók við verðlaununum hágrét hann uppi á sviði og þakkaði fyrir sig á sama tíma og hann baðst afsökunar á hegðun sinni. Reyndi hann að slá á létta strengi og sagði að lífið líkti eftir listinni, hann væri nú orðinn klikkaði pabbinn.
Vísaði hann þar til kvikmyndarinnar King Richard, þar sem hann fer með hlutverki Richards Williams, pabba tennisstjarnanna Venus og Serenu Williams. Hefur Richard þótt nokkuð óeðlilegur faðir en hann lagði mikla áherslu á að dætur hans næðu langt í tennis.
„Ástin lætur þig gera klikkaða hluti,“ sagði Smith á sviðinu. Hvort ofbeldishegðun Smiths muni hafa afleiðingar verður að koma í ljós en stjörnur á borð við Judd Apatow hafa tjáð sig um atvikið og sagt það vera langt frá því að vera í lagi.