Arndís og Gunnar tilnefnd í ár

Rán Flygenring, Gunnar Helgason, Arndís Þórarinsdóttir og Sigmundur B. Þorgeirsson …
Rán Flygenring, Gunnar Helgason, Arndís Þórarinsdóttir og Sigmundur B. Þorgeirsson í Norræna húsinu í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skáldsögurnar Bál tímans – Örlagasaga Möðruvallabókar í sjö hundruð ár eftir Arndísi Þórarinsdóttur sem Sigmundur B. Þorgeirsson myndlýsti og Alexander Daníel Hermann Dawidsson: Bannað að eyðileggja eftir Gunnar Helgason sem Rán Flygenring myndlýsti eru tilefndar til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2022 fyrir Íslands hönd. Þetta var tilkynnt í Norræna húsinu fyrir stundu.

Arndís Þórarinsdóttir
Arndís Þórarinsdóttir mbl.is/Arnþór Birkisson

Landsbundnar dómnefndir tilnefna í ár samtals 13 verk til verðlaunanna, en sameiginleg norræn dómnefnd velur vinningshafa ársins og verða verðlaunin af­hent við hátíðlega athöfn í Helsinki 1. nóvember í tengslum við þing Norðurlandaráðs. Verðlaunahafinn hlýtur verðlaunagripinn Norðurljós og 300 þúsund danskar krónur sem samsvarar rúmum 5,7 milljónum íslenskra króna.

Gunnar Helgason
Gunnar Helgason Ljósmynd/Aðsend

Bækurnar sem tilnefndar eru í ár eru:

Danmörk

  • PO POI eftir Jan Oksbøl Callesen. Myndabók, Jensen & Dalgaard, 2021.
  • Den om Rufus eftir Thorbjørn Petersen, Herman Ditte og Mårdøn. Myndabók, Gads Forlag, 2021.

Finnland

  • Om du möter en björn eftir Malin Kivelä, Martin Glaz Serup og Linda Bondestam (myndhöfundur). Myndabók. Förlaget M, 2021.
  • Oravien sota eftir Riina Katajavuori og Martin Baltscheit (myndhöfundur). Myndabók, Tammi, 2021.

Færeyjar

  • Abbi og eg og abbi eftir Dánial Hoydal og  Annika Øyrabø (myndhöfundur). Myndabók, Bókadeild Føroya Lærarafelags, 2021.

Grænland

  • Lilyp Silarsuaa eftir Sørine Steenholdt och Ivínguak` Stork Høegh (myndhöfundur). Myndabók, Arctic Media, 2021.

Ísland

  • Bál tímans – Örlagasaga Möðruvallabókar í sjö hundruð ár eftir Arndísi Þórarinsdóttur og Sigmundur B. Þorgeirsson (myndhöfundur). Myndlýst skáldsaga, Mál og menning, 2021.
  • Alexander Daníel Hermann Dawidsson: Bannað að eyðileggja eftir Gunnar Helgason og Rán Flygenring (myndhöfundur). Myndlýst skáldsaga, Mál og menning, 2021.

Noregur

  • Georg er borte eftir Ragnar Aalbu. Myndabók, Ena/Vigmostad & Bjørke, 2021.
  • Ubesvart anrop eftir Nora Dåsnes. Myndræn skáldsaga, Aschehoug, 2021.

Samíska málsvæðið

  • Gárži eftir Sara Vuolab. Ljóðabók, ÈálliidLágádus 2019.

Svíþjóð

  • Naturen eftir Emma Adbåge. Myndabók, Rabén & Sjögren, 2021.
  • Himlabrand eftir Moa Backe Åstot. Unglingaskáldsaga, Rabén & Sjögren, 2021.

Kúnst að gefa gömlu skinnhandriti rödd

Í umsögn dómnefndar um Bál tímans – Örlagasaga Möðruvallabókar í sjö hundruð ár segir: „Hvernig skrifar maður um eldgamalt skinnhandrit og mörg hundruð ára gamlan þjóðararf þannig að nútímabörn langi til að lesa? Arndísi Þórarinsdóttur hefur tekist það listilega vel með því að setja sig í spor Möðruvallabókar og skrifa þvæling hennar í gegnum Íslandssöguna sem háskalega spennusögu.

Skinnhandritin sem varðveitt eru á Íslandi eru samnorrænn arfur. Þau geyma fornar sögur, kvæði, galdra, lög og fróðleik. Það er mikilvægt fyrir norrænt samfélag að komandi kynslóðir hafi lifandi tengingu við þessa dýrgripi sem margir eru illa farnir en geyma forna þekkingu og sögu okkar allra. Stærst og þekktast þessara handrita er Möðruvallabók, sem í Báli tímans stígur sjálf fram og segir sögu sína í nokkurs konar skáldaðri sjálfsævisögu. Bókin lendir í svaðilförum á landi og sjó, verður fyrir óhöppum og skemmdarverkum og sleppur oft naumlega eins og í brunanum mikla í Kaupmannahöfn 1728 og fallbyssuskothríð Englendinga á borgina 70 árum síðar.

Frásögnin bregður upp grípandi mynd af þeim sögulegu vendingum sem Arndís lætur handritið ganga í gegnum. Við fylgjum þannig Möðruvallabók eftir á lykilaugnablikum sögunnar bæði á Íslandi og í Kaupmannahöfn, allt frá ritun handritsins fram til okkar daga – og reyndar aðeins lengra, því sögulok eru í framtíðinni. Þannig fær lesandinn tilfinningu fyrir smæð sinni í stóra samhenginu og að hann tilheyri bara stuttum kafla úr sögunni.

Myndir Sigmundar fanga lesandann og bæta kröftugu lagi ofan á frásögnina. Þær sýna okkur klæðaburð og híbýli mismunandi tíma, því Möðruvallabók kemur víða við – hún er hálfgerður tímaflakkari. Leiða má líkur að því að myndhöfundurinn hafi fengið innblástur úr skinnhandritum, því sumar myndirnar minna á að skinnblöðin voru margnýtt og undir einni sögu var kannski önnur eldri. Myndirnar eru ólíkar og þjóna mismunandi tilgangi, sumar segja sögu, með vísunum og myndmáli, aðrar vekja upp hughrif í takt við textann.

Það er kúnst að gefa gömlu skinnhandriti rödd sem getur tengt börn dagsins í dag við ævafornan menningararf heimsbyggðarinnar. Í Báli tímans hefur það tekist einstaklega fallega með sammannlegri sorg yfir sögunum sem glötuðust og gleðinni yfir þeim sem varðveittust þrátt fyrir endalaust stríðsbrölt mannanna.“

Heldur meistaralega um taumana

Í umsögn dómnefndar um Alexander Daníel Hermann Dawidsson: Bannað að eyðileggja segir: „Hispurslaust en með næmu innsæi og kímni dregur Gunnar Helgason upp sannfærandi mynd af sögupersónunni Alexander Daníel Hermanni Dawidsson í Bannað að eyðileggja. Alexander upplifir heiminn á alveg einstakan hátt sem hefur bæði neikvæð og jákvæð áhrif á alla hans tilvist. En eitt er alveg skýrt frá upphafi: Við erum með Alexander í liði og í því liggur styrkur bókarinnar. Samkenndin með honum er rík og það er sárt þegar Alexander og heimurinn rekast saman.

 Sterkur þráður í bókinni er sú mikilvæga hugsun að mæta öllum, stórum og smáum, þar sem þau standa. Allir eiga virðingu skilið og flest göngum við í gegnum alls konar erfiðleika sem hafa flókin áhrif á daglegt líf okkar. Lesandinn lifir sig inn í átök Alexanders við sjálfan sig og aðra. Af einhverjum ástæðum á hann erfitt með að mynda vinatengsl sem endast. Ástæðan er líklega ADHD. Undirliggjandi er líka stór sorg, mamma Alexanders er farin og lengst af sögunni vitum við ekki hvað varð af henni. Sorgin er óuppgerð og það er gefið sterkt til kynna að pabbi hans sé líka sorgmæddur og óviss um hvernig hann á að hjálpa syni sínum að takast á við lífið og dauðann.

Gunnar Helgason heldur meistaralega um taumana þar sem hann lætur taktinn í frásögninni elta líðan Alexanders og gefur lesandanum innsýn í hvað ADHD ræður þar miklu. Hraðinn eykst þegar Alexander missir tökin á dagsplaninu sínu og nær ekki að fylgja stressandi skipulagi og öllum vekjaraklukkunum sem hringja til að minna á fótboltaæfingar og fatnað, uppþvottavélar og heimalestur, skólatösku og úlpu. Hringekjan snarstoppar síðan þegar hann kemur auga á kött og gleymir öllu öðru. Þá róast frásögnin en spennan helst því lesandinn veit vel að skipulagið er um það bil að fara út af sporinu.

Myndhöfundur bókarinnar er Rán Flygenring. Kröftugar og allt að því iðandi pennateikningarnar lýsa innra sjónarhorni Alexanders og hvernig hann tekst á við ofvirka tilveru sína. Stundum er kaótík allsráðandi á myndfletinum, annars staðar kemst bara eitt fyrir þegar eitthvað heltekur Alexander. Rétt eins og texti bókarinnar eru teikningarnar fullar af hugarflugi, húmor og virðingu fyrir viðfangsefninu

Það sem gerir Bannað að eyðileggja að áhugaverðu og mjög þörfu innleggi í íslenska barnabókaflóru er að nær allar persónurnar sem drífa söguna áfram eru innflytjendur, af fyrstu, annarri eða þriðju kynslóð. Faðir Alexanders er pólskur verkamaður og vinkona Alexanders, Sóley Pakpao, á taílenska móður. Alexander og Sóley deila reynsluheimi barna innflytjenda sem þurfa að fylgja ættingjum í læknisheimsóknir til að túlka fyrir þá. Að aðalpersónurnar tilheyri minnihlutahóp innflytjenda er ekki aðalatriði í sögunni. Það er engin áhersla á þjóðerni og höfundur velur að tala aldrei sérstaklega um Íslendinga, svo lesandinn upplifir aldrei öðrun á aðalpersónunum, út frá þjóðerni. Pólitík, mannréttindi og sammannleg sorg liggja undir söguþræðinum, en frásögnin er bráðfyndin og hversdagsleg atriði eins og unglingaást, heimalærdómur og vandræðalegir foreldrar undirstrika það sem við eigum sameiginlegt, sem er alltaf á endanum mikilvægara en það sem skilur okkur að.“

Ætlað að auka áhuga á norrænu menningarsamfélagi

Barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs eru yngstu verðlaun ráðsins, en þau voru fyrst veitt árið 2013. Norðurlandaráð veitir á hverju ári fimm verðlaun og eru þau auk barna- og unglingabókmennta á sviði bókmennta, kvikmynda, tónlistar og umhverfismála. Verðlaunum Norður­landaráðs er ætlað að auka áhuga á bæði norrænu menningarsamfélagi og samstarfi um leið og viðurkenning er veitt fyrir framúrskarandi árangur á sviði lista og umhverfismála. Allar nánari upplýsingar um verðlaunin má nálgast á vefnum: www.norden.org en þar má meðal annars lesa umsagnir dómnefnda.

Þess má geta að allar tilnefndar bækur ársins eru aðgengilegar á frummálunum á bókasafni Norræna hússins. Þar má einnig nálgast allar vinningsbækur frá upphafi. Skrifstofa hvorra tveggja bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs hefur verið til húsa í Norræna húsinu frá 2014.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það eru oft einföldustu hlutir sem vefjast mest fyrir manni. Ef þú gengur fram af þeim munu þeir svara þér fullum hálsi. Mundu bara að ekki er allt sem sýnist.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Torill Thorup
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það eru oft einföldustu hlutir sem vefjast mest fyrir manni. Ef þú gengur fram af þeim munu þeir svara þér fullum hálsi. Mundu bara að ekki er allt sem sýnist.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Torill Thorup