Framleiðslufyrirtækið TrueNorth þarf ekki að greiða fyrir heimild til að loka vegum víðsvegar á höfuðborgarsvæðinu á næstu dögum. Tökur fara fram á Krýsuvíkurvegi í dag, á morgun verður Álftanesvegur lokaður og á fimmtudag fara tökur fram á Seltjarnarnesi. Um helgina og í næstu viku verða svo viðtækar lokanir í miðborginni og Vesturbæ.
Tökurnar sem nú fara fram eru þær umfangsmestu sem farið hafa fram í Reykjavík en um er að ræða framleiðslu á hasarmyndinni Heart of Stone sem Jamie Dornan og Gal Gadot fara með aðalhlutverk í.
Árni Friðleifsson aðalvarðstjóri Umferðardeildar lögreglu segir í samtali við mbl.is að slíkar lokanir séu alltaf unnar með öryggi íbúa að leiðarljósi og að lokanirnar nái ekki til viðbragðsaðila á svæðinu.
Umferð um Álftanes verður takmörkuð yfir daginn á morgun og verður umferð beint um „gamla“ Álftanesveg sem er einstefnuvegur. Viðbragðsaðilar munu hins vegar geta keyrt beint í gegn á Álftanesvegi ef nauðsyn krefur.
TrueNorth annast lokun allra vega og greiðir veghaldara ekki neitt fyrir heimildina til að loka vegunum. Lokanirnar eru hins vegar unnar í eftir reglum frá veghaldara og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra sem fundaði með TrueNorth fyrir nokkrum vikum.
Tökur hefjast í miðborg Reykjavíkur á laugardag, 2. apríl. Fyrir hádegi verður Sæbraut lokuð frá Snorrabraut að Hörpu og Kalkofnsvegur lokaður að Geirsgötu. Á sunnudag verður aðgangur að plani fyrir framan Hörpu takmarkaður að hluta til. Sæbraut verður aftur lokuð frá Snorrabraut að Hörpu og Kalkofnsvegur lokaður að Geirsgötu.
Á mánudag, 4. apríl, verður umferð takmörkuð á Skólavörðuholti ásamt nærliggjandi götum í kringum Hallgrímskirkju. Kárastígur, Bergþórugata frá Vitastíg að Frakkastíg, Grettisgata frá Vitastíg að Frakkastíg, og Njálsgata frá Bjarnastíg að Frakkastíg. Á þriðjudag, 5. apríl, verður umferð takmörkuð í sömu götum.