Bandaríski leikarinn Jim Carrey hefur verið gagnrýndur síðustu daga fyrir að fordæma kinnhestinn sem leikarinn Will Smith veitti uppistandaranum Chris Rock á Óskarsverðlaunahátíðinni líkt og frægt er orðið.
Carrey tjáði sig um atvikið og var sannfærður um að aðstandendur hátíðarinnar hefðu hiklaust átt að vísa Smith á dyr í kjölfar atviksins. Þá sagði hann einnig að honum fyndist gunguskapur í Rock að ætla ekki að leggja fram kæru á hendur Smiths.
„Ég hefði tilkynnt Lögreglunni um atvikið og krafið Smith um 200 milljónir dollara því myndbandið verður alltaf til,“ er haft eftir Carrey sem gleymdi í þeirri andrá að hugsa um sína eigin sviðnu jörð. Fréttamiðillinn Daily Mail greindi frá.
Háværar gagnrýnisraddir hafa verið á kreiki á samfélagsmiðlinum Twitter síðustu daga sem beinast að Jim Carrey. Þar hefur hann verið minntur á atvik þar sem hann gerðist sekur um að beita leikkonuna, Aliciu Silverstone, kynferðislegu ofbeldi fyrir framan alla heimsbyggðina árið 1997.
Gamalt myndskeið gengur nú manna á milli þar sem sjá má með hvaða hætti Carrey brýtur gegn Silverstone í beinni útsendingu á MTV-verðlaunahátíðinni í þá daga. Silverstone, sem þá var aðeins tvítug, veitti leikaranum verðlaun á hátíðinni og kallaði hann upp á svið. Þegar hann er þangað kominn tekur hann í Silverstone og kyssir hana blautum og áköfum rembingskossi sem var lengri og djarfari en almennt gengur og gerist við tilefni sem þessi. Af myndbandinu að dæma var Silverstone ekki viðbúin kossinum.
Twitter-notendur hafa nú kallað Carrey hræsnara fyrir að fordæma löðrung Smiths og biðja hann um að líta í sinn eigin barm áður en hann sakfellir aðra.
Jim Carrey hefur ekki tjáð sig um málið en svona yfirdrepsskapur kemst alltaf upp á yfirborðið - Internetið gleymir engu.
Myndbandið má sjá hér að neðan.