Athafnakonan og raunveruleikastjarnan Kim Kardashian sagði í samtali við spjallþáttastjórnandann Robin Roberts á dögunum að hún væri mjög hamingjusöm með kærastanum Pete Davidson. Sagðist hún upplifa öryggi og friðsæld með Davidson, sem er ólíkt því sem hún upplifði í hjónabandi sínu við fyrrverandi eiginmann sinn, Kanye West.
Stikla úr þættinum Good Morning America, sem Kardashian var gestur í, gengur nú manna á milli á samfélagsmiðlinum Twitter en þar opnar hún sig upp á gátt um ástarsambandið við grínistann Pete Davidson. Fréttamiðillinn Page Six greindi frá.
„Ég er mikil sambandstýpa og ég væri ekki með einhverjum ef ég ætlaði mér ekki að eyða miklum tíma með honum,“ svaraði Kardashian þegar Roberts spurði hana út í alvarleika sambandsins. „Auðvitað vil ég gefa mér og sambandinu tíma en ég er rosalega hamingjusöm. Það er svo góð tilfinning að vera í friði og ró,“ sagði hún jafnframt.
Ættmóðir Kardashians-fjölskyldunnar, Kris Jenner, var einnig í viðtalinu og lagði inn gott orð fyrir nýjasta tengdason sinn.
„Pete er frábær,“ sagði hún. „Hann er mjög góður strákur og fær hana til að hlæja,“ er haft eftir móður Kardashians.
Turtildúfurnar Kim Kardashian og Pete Davidson hafa verið að stingja saman nefjum síðasta hálfa árið. Upp úr hjónabandi Kardashians og Kanye Wests flosnaði í byrjun síðasta árs en formlegur lögskilnaður fór í gegn í mars síðastliðnum. Kardashian og Kanye West eiga saman fjögur börn.
.@KimKardashian tells @RobinRoberts "I wouldn't be with someone if I didn't plan on spending a lot of my time with them" when asked how serious her relationship with Pete Davidson is. #TheKardashians special premieres tomorrow 8/7c on @ABC and @Hulu. https://t.co/PtcWayeRFV pic.twitter.com/TKJTYX9BJg
— Good Morning America (@GMA) April 6, 2022