Tónlistarkonan Tish Cyrus, móðir söngkonunnar Miley Cyrus, hefur sótt um skilnað við Billy Ray Cyrus. Er þetta í þriðja skipti sem stefnir í skilnað hjá Cyrus-hjónunum sem hafa verið gift í þrjá áratugi.
Tish sótti um skilnaðinn hinn 6. apríl í Williamsonsýslu í Tennessee í Bandaríkjunum. Hún lét fylgja með að þau Billy Ray hefðu ekki búið saman lengi og ekki umgengist hvort annað eins og eiginkona og eiginmaður í meira en tvö ár.
Þetta kemur glöggum aðdáendum fjölskyldunnar eflaust ekki á óvart en Billy Ray virtist ekki hafa haldið upp á jólin með fjölskyldu sinni af myndum að dæma sem dóttir hans Miley birti á Instagram.
Auk þess að eiga dótturina Miley eiga Cyrus-hjónin Brandy, Trace, Braison og Noah.
Billy Ray sótti um skilnað við Tish í október árið 2010. Í mars árið 2011 dró hann umsóknina til baka og vildi sameina fjölskylduna á ný. Tish sótti svo um skilnað árið 2013 við hann. Í kjölfarið fóru þau í hjónabandsráðgjöf og tóku aftur saman.