Tónlistarkonan Megan Thee Stallion segist hafa orðið gríðarlega hrædd þegar hún lenti í skotárás í eftirpartíi í Hollywood Hills í Bandaríkjunum í júní á síðasta ári. Þá hræddist hún að hún myndi fá skot annars staðar í líkamann.
Þetta er í fyrsta skipti sem hún tjáir sig um skotárásina í viðtali við CBS. Stallion segir Tory Lanez hafa skotið hana í fæturna, en hann var handtekinn á sínum tíma en neitar ásökununum.
Stallion segir að hann hafi dregið upp byssuna þegar rifrildi braut út á milli þeirra tveggja. „Ég vildi fara, en enginn annar vildi fara,“ sagði hún.
Hún segist aldrei hafa lagt hendur á neinn og ekki hækkað róminn. Hún segist hafa farið út úr bíl þegar karlmaður öskrar á hana og segir henni að dansa. Síðan heyrði hún skothljóð. Hún segir hann hafa skotið tveimur skotum úr bílnum.
„Ég vildi ekki hreyfa mig of hratt, því ég hugsaði bara Guð minn góður, ef ég fer í ranga átt veit ég ekki hvort hann sé að fara skjóta eitthvað sem er mjög mikilvægt,“ sagði hún. „Ég var mjög hrædd, því ég hef aldrei orðið fyrir byssukúlu áður,“ bætti hún við.
Í skýrslutöku hjá lögreglu sagði hún upphaflega að hún hafi sært sig þegar hún steig á brotið glas í eftirpartíinu. Seinna sagði hún opinberlea að Lanez hafi skotið hana.