Tónlistarkonan Céline Dion hefur enn á ný frestað tónleikaferðalagi sínu um Evrópu. Fyrst þurfti hún að fresta ferðalaginu vegna heimsfaraldursins en nú er það vegna heilsu hennar.
Tónleikaröðin átti að hefjast nú í maí, en nú er ekki ráðgert að hún hefjist fyrr en í febrúar 2023. Þá hefur söngdívan kanadíska einnig þurft að fella niður nokkra tónleika.
Dion tilkynnti um breytingarnar í myndbandi á samfélagsmiðlum en gaf aðdáendum sínum líka innsýn inn í heilsu sína. Hún hefur verið að glíma við vöðvakrampa en er á bata vegi þó það gangi hægt.
Hún baðst afsökunar á því að þurfa að fresta tónleikaferðalagi sínu en sagðist ekki vilja stíga á svið nema vera í toppstandi.