Bilunin í hljóðkerfinu á sviðinu á dómararennslinu í gær kom Systrum úr jafnvægi. Þau segja bilunina hafa komið þeim mikið á óvart því allt hafi gengið vel á sviðinu á æfingum síðustu vikuna.
„Já þetta kom allavega mér úr jafnvægi,“ segir Sigríður Eyþórsdóttir í samtali við mbl.is og systkini hennar Elín, Elísabet og Eyþór sögðust vera sammála henni. Blaðamaður hitti systkinin á hótelinu þeirra rétt áður en þau lögðu af stað upp í höll til þess að fara á aukaæfingu vegna bilunarinnar.
Greint var frá því í gærkvöldi að bilun hafi átt sér stað í hljóðkerfinu þegar Ísland flutti lag sitt fyrir dómara. Bilunin var þó ekki greinanleg í streymi til dómaranna en kom þeim engu að síður úr jafnvægi.
Elín segir að voðinn sé vís þegar maður heyrir ekki í hinum á sviðinu. „Það er tvennt sem maður óttast mest í svona aðstæðum, annars vegar að maður syngi í rangri tóntegund, eða að maður detti úr takt,“ segir Elín.
Systkinin segjast öll hafa orðið aðeins óöruggari á sviðinu en að þau séu samt mjög örugg fyrir æfingar dagsins og keppnina í kvöld. „Þegar maður heyrir illa í sjálfum sér þá verður maður ósjálfrátt aðeins hræddur,“ segir Sigga.
„Það kom okkur mjög mikið á óvart að þetta væri í ólagi í gær,“ segir Eyþór.
Þau eru samt sammála um að æfingin hafi gengið ótrúlega vel þrátt fyrir bilunina. „Núna höfum við allavega prófað að vera á sviðinu þegar eitthvað fer úrskeiðis og vitum hvernig við eigum að komast í gegnum það,“ segir Sigga.
Þau vonast til æfingar dagsins skili þeim einfaldlega betra hljóð í eyrun. „Ef hljóðið er okei, erum við ókei,“ segir Elín.
Systkinin segjast vera gríðarlega spennt að stíga loksins á sviðið í kvöld og flytja lagið fyrir Evrópu. Að baki séu tveir langir mánuðir af vinnu og það verði gaman sýna afraksturinn. Þau senda hlýjar kveðjur heim til Íslands.
„Takk fyrir að hafa trú á okkur og við munum halda áfram að gera okkar besta. Það eru allir búnir að sýna okkur svo mikinn stuðning og við erum svo þakklát fyrir það. Okkar fólk heima á Íslandi skiptir okkur mestu máli. Það skiptir okkur mestu máli að vera okkar fólki til sóma,“ segir Sigga.
Systkinin stefna að sjálfsögðu á að komast áfram í kvöld en þau vona að Úkraína komist áfram „Ég vona að Úkraína vinni Eurovision,“ segir Sigga og öll systkinin taka undir með henni.
„Það er auðvelt að hugsa að allir haldi með Úkraínu útaf ástandinu þar, og auðvitað eru einhverjir þar. En þeir eru líka með geggjað aðtriði og geggjað lag,“ segir Eyþór. Þau segja að Úkraína muni ekki fá samúðaratkvæði frá þeim.