Systkinin Sigríður, Elísabet, Elín og Eyþór Eyþórsbörn segja að það hafi komið þeim mikið á óvart að komast áfram í úrslit Eurovision söngvakeppninni í kvöld. Þau senda þakkir til allra heima á Íslandi, sama hvort þau hefðu trú á þeim eða ekki.
„Við erum ótrúlega stolt af því að vera Íslendingar og fá að tala fyrir mannréttindum,“ sagði Sigga í viðtali við fjölmiðla eftir keppnina.
Þau segja það gefa þeim tilgang sem manneskjur og sem tónlistarfólk að skilaboðin þeirra hafi náð í gegn til fólks um alla álfuna. Í gegnum keppnina hafa Systur vakið athygli á málefnum transbarna og stríðinu í Úkraínu.
„Sonur minn er trans. Ég uppgötvaði ekki hversu þröngsýnt fólk getur verið fyrr en hann kom út sem trans. Því ákváðum við að við vildum opna augu foreldra fyrir þessu málefni. Fólk getur verið þröngsýnt, og við viljum ekki dæma það fólk, heldur viljum við bara deila skilaboðunum og biðja fólk að elska börnin sín skilyrðislaust,“ sagði Sigga á blaðamannafundi í höllinni fyrr í kvöld.
Hópurinn fær frí á morgun og ætlar fá sér gott kaffi og njóta lífsins áður en undirbúningur fyrir úrslitakvöldið hefst.
Úrslit Eurovision fara fram hinn 14. maí næstkomandi og mun mbl.is halda áfram að flytja lesendum fréttir frá Tórínó út vikuna.