Sonja Sif Þórólfsdóttir skrifar frá Tórínó
Systur fá eina aukaæfingu í PalaOlimpico höllinni í Tórínó í dag vegna bilunar í svokölluðum „in ear“ búnaði á dómararennslinu í gærkvöldi. Bilunin olli því að Systur heyrðu ekki hver í annarri á sviðinu.
Tvö rennsli voru í gær og gekk það fyrra vel. Á dómararennslinu í gærkvöldi gekk hins vegar allt á afturfótunum, in ear búnaðurinn bilaði og hljóðblöndunin í salnum var í ólagi svo áhorfendur heyrðu illa í söng Systra.
Dómararennslið er eitt það allra mikilvægasta fyrir utan undankvöldið sjálft því þá gefa dómarar annarra landa stigin sín. Mistökin í hljóðblönduninni heyrðust þó ekki í útsendingunni til dómara.
Í dag verður svo eitt rennsli áður en kemur að stóru stundinni. Keppnin hefst klukkan 19 í kvöld að íslenskum tíma og eru Systur númer 14 í röðinni.
Samantekt af dómararennslinu má sjá hér fyrir neðan.