Bandaríski stórleikarinn Ray Liotta er látinn, 67 ára að aldri. Liotta var hvað þekktastur fyrir að fara með hlutverk í kvikmyndunum Goodfellas og Field of Dreams.
Umboðsmaður Liotta staðfesti andlát hans við fjölmiðla vestanhafs og sagði leikarann hafa látist í svefni í Dóminíska lýðveldinu. Liotta var þar við tökur á sinni nýjustu kvikmynd Dangerous Waters.
Hann var trúlofaður Jacy Nittolo og lætur eftir sig dótturina Karsen.
Liotta skaut upp á stjörnuhimininn árið 1990 þegar hann lék í Martin Scorsese-kvikmyndinni Goodfellas þar sem hann fór með hlutverk glæpamannsins Henrys Hills á móti Robert De Niro og Joe Pesci.