Kviðdómurinn í meiðyrðamáli leikarans Johnny Depp gegn fyrrverandi eiginkonu hans, leikkonunni Amber Heard, hefur komist að niðurstöðu.
Síðasti dagur réttarhaldanna, sem stóðu yfir í rúmar sex vikur, var síðasta föstudag. Hafa kviðdómararnir sjö eytt síðustu þremur dögum í að komast að niðurstöðu sem kynnt verður í beinni útsendingu klukkan 19 að íslenskum tíma.
Talsmaður Heard sagði hana á leið í dómssalinn eftir að kviðdómurinn komst að niðurstöðu. Ekki er búist við því að Depp verði viðstaddur en hann hefur verið á Englandi undanfarna daga og meðal annars spilað á þrennum tónleikum með Jeff Beck.
Depp höfðaði mál gegn Heard vegna greinar sem hún skrifaði í Washington Post árið 2018. Í henni steig hún fram sem þolandi heimilisofbeldis en nafngreindi Depp ekki. Hann fór fram á 50 milljónir í skaðabætur og sagði greinina hafa valdið því að hann missti fjölda hlutverka. Bæði segja þau málið hafa valdið kvikmyndaferli þeirra í Hollywood skaða.
Heard hefur höfðað mál gegn honum sömuleiðis og krefst 100 milljóna bandaríkjadala frá honum vegna þess ofbeldis sem hún segir hann hafa beitt sig.
Í úrskurði sínum, sem telur átta blaðsíður, þurftu kviðdómararað svara 24 spurningum í tengslum við meiðyrðamál Depps og 18 spurningum í tengslum við mál hennar. Leitast er eftir að komast að niðurstöðu hvort fullyrðingar Heard í greininni hafi verið settar fram af brotavilja, með þá vitneskju að þær væru ekki sannar, eða hvort fullyrðingarnar hafi verið settar fram með skeytingarleysi fyrir því hvort þær væru falskar eða ekki.
Hægt verður að fylgjast með niðurstöðum kviðdómsins, þegar þær verða lesnar upp, hér fyrir neðan.