Fjórða þáttaröð Stranger Things sem streymisveitan Netflix framleiðir hefur fengið gríðarlega góðar viðtökur síðan hún kom út. Alls hefur henni verið streymt i 286,7 milljónir klukkustunda.
Sló hún met þáttanna Bridgerton sem var streymt í 193 milljón klukkustundir þegar hún kom út í mars á þessu ári.
Þáttaröðin er líka í fyrsta sæti á vinsældarlistum í 83 löndum og í efstu tíu sætunum í öllum 93 löndunum sem Netflix fylgist með.
Stjórnendur Netflix anda því sennilega aðeins léttar en undanfarnar vikur, en streymisveitan hefur tapað viðskiptavinum og gengi hlutabréfa í fyrirtækinu hríðfallið.
Fjórða þáttaröðin af Stranger Things kemur í tveimur hlutum þetta sumarið. Fyrstu sjö þættirnir komu 27. maí síðastliðinn og síðustu tveir þættirnir fara í loftið hinn 1. júlí næstkomandi.
Stranger Things er ein vinsælasta þáttaröð sem Netflix framleiðir. Fyrsta serían kom út árið 2016 og hafa vinsældir þáttanna aukist jafnt og þétt. Í dag eru framleiddir tölvuleikir, skyndibitar og lífstílsvörur undir merkjum þáttaraðanna auk sem það er til skemmtigarður í anda þáttanna.