Hin kanadíska Barbara Hannigan er í senn heimsklassahljómsveitarstjóri og sópransöngkona eins og þær gerast bestar. Einstakt þykir hvernig henni tekst að sameina þessi tvö hlutverk. Hún kemur fram ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands á Listahátíð í Reykjavík um helgina. Tvennir tónleikar verða haldnir í Eldborg, þeir fyrri annað kvöld, föstudagskvöldið 3. júní kl. 19:30, og þeir seinni laugardaginn 4. júní kl. 17.
Blaðamaður náði tali af Hannigan símleiðis fyrr í vikunni, þar sem hún beið eftir flugi sínu til Íslands á Kastrup-flugvelli. Hún hafði þá nýlokið við að halda tónleika með fílharmóníusveit Tívolísins í Kaupmannahöfn og þar áður komið fram í Roy Thomson Hall í Toronto í heimalandinu Kanada.
Hannigan hóf ferilinn sem sópransöngkona. „Ég byrjaði mjög ung, og þreytti frumraun mína þegar ég var 19 ára. Á árunum um og upp úr 35 ára fóru ýmsir tónlistarmenn að segja við mig að þeir sæju hljómsveitarstjóra í mér og spyrja hvort það væri leið sem ég gæti hugsað mér að feta. Með góðum ráðum og hvatningu ákvað ég að láta á það reyna. Þá var ég í kringum fertugt,“ segir Hannigan sem er fædd 1971 og varð því 51 árs í ár.
„Mínir fyrstu tónleikar sem stjórnandi voru ekki einhverjir smátónleikar. Þeir voru í Châtelet-leikhúsinu í París. Svo þetta var í raun mikil áhætta. Það var ekki markmiðið að breyta algjörlega um stefnu á ferlinum. Ég hugsaði bara með sjálfri mér að ég yrði að prófa þetta einu sinni eða kannski tvisvar. En tilfinningin í kringum þetta var svo jákvæð og ég fann að tónlistarfólkið var með mér í liði. Það er mjög mikilvægt að manni líði eins og það vilji virkilega spila með manni. Þannig að ég ákvað að halda áfram láta á þetta reyna. Síðan þá hef ég eiginlega verið með tvöfaldan feril. Stundum syng ég eingöngu, stundum stjórna ég eingöngu og stundum geri ég hvort tveggja í senn,“ segir hún og bætir við að um tveir þriðju af árinu fari í hljómsveitarstjórn og þriðjungur í söng.
„Það mikilvægasta er að það myndist ákveðið traust milli tónlistarmanna. Þá getum við boðið áhorfendunum með okkur í þessa upplifun. Þá verða áhorfendurnir ánægðir, því þeir geta skynjað hið góða samband sem myndast hefur milli tónlistarfólksins á sviðinu.
Ég ferðast mikið en ég reyni að takmarka vinnu mína við um það bil tólf hljómsveitir. Síðustu tíu ár hefur það verið mér mikilvægt að byggja upp þessi sambönd fremur en að halda ótal ólíka tónleika.“
Það er því nokkuð sérstakt að Hannigan sé á leið til Íslands í fyrsta sinn og ætli að vinna með Sinfóníuhljómsveitinni. „Ég er mjög spennt að kynnast tónlistarfólkinu. Ég held að ég þekki engan í hljómsveitinni fyrir. Svo ég hlakka mikið til,“ segir hún.
„Þetta er dásamleg efnisskrá, hún er tilfinningaþrungin og rómantísk. Öll verkin fjalla um ást og missi.“ Fyrst á efnisskránni er verkið Unanswered Question eftir bandaríska tónskáldið Charles Ives.
„Ég nota síðan Verklärte Nacht eftir Schönberg sem stórt opnunarverk. Það fjallar um konu og mann sem verða ástfangin, þrátt fyrir mótlæti. Verkið er samið fyrir strengjasveit. Það eru engin orð í því en það er byggt á ljóði sem var skrifað undir lok 19. aldar. Þetta er svo fallegt verk, alveg ótrúlegt.“
Því næst flytja þau Lulu-svítuna eftir Alban Berg, sem er rúmlega hálftíma langt verk. Hannigan syngur í miðju verkinu og undir lokin en annars er verkið flutt af hljómsveitinni. Hún kallar svítuna nokkurs konar stiklu fyrir samnefnda óperu Bergs, Lulu. „Óperan fjallar um konu sem hefur átt erfitt líf en er algjör hetja í mínum augum. Hún þekkir sjálfa sig og lifir algjörlega eftir eigin innsæi.“
Hannigan hefur farið með titilhlutverk óperunnar í mörgun fremstu óperuhúsum heims og því er við hæfi að nú stjórni hún þessari samnefndu svítu. „Þessi tónlist er eiginlega orðin hluti af mér,“ segir hún.
Efnisskrá tónleikanna í Eldborg lýkur með svítunni Girl Crazy eftir George Gershwin í útsetningu Tony-verðlaunahafans Bills Elliotts sem Hannigan segir vera eldkláran Broadway-útsetjara. Þessi útsetning er sérsniðin fyrir Hannigan til þess að flytja með sinfóníuhljómsveit. Hún segir Sinfóníuhljómsveit Íslands hafa sérstaklega beðið um að fá að flytja þetta verk með henni. „Það er skrifað miðað við að vera flutt með Lulu-svítunni. Það er líka einstakt augnablik í verkinu, þar sem hljómsveitin spilar ekki bara á hljóðfærin sín, heldur syngur líka.“
Á fyrstu plötu Hannigans, þar sem hún bæði syngur og stjórnar, Crazy Girl Crazy (2017), er bæði að finna Lulu-svítuna og þessa útsetningu þeirra Elliotts af Girl Crazy. Fyrir þá útgáfu hlaut Hannigan Grammy-verðlaun en hún var valin besta klassíska einsöngsplatan árið 2018.
„Ég hef ekki flutt þessi verk saman í fjögur ár. Að hluta til vegna heimsfaraldursins og að hluta til vegna þess að ég hafði flutt þau svo oft að ég ákvað að leggja þau aðeins til hliðar. Svo ég er mjög spennt að koma aftur að þeim eftir allan þennan tíma. Ég get ekki beðið eftir því að fara að skapa tónlist með íslensku hljóðfaraleikurunum.“
Þetta er í fyrsta sinn sem Hannigan kemur hingað til lands. Æfingar með Sinfóníunni fara fram á morgnana, svo hún segist vonast til að geta nýtt seinni hluta dags til þess að kynnast landinu. „Ég pakkaði að minnsta kosti regnjakkanum mínum og gönguskónum. Mig langar bara að vera utandyra og njóta náttúrunnar.“
Barbara Hannigan er margverðlaunuð. Auk fyrrnefndra Grammy-verðlauna hefur hún meðal annars hlotið Léonie Sonning-verðlaun árið 2020 og hin virtu Rolf Schock-verðlaun árið 2018. Í kynningarhefti Listahátíðar kemur fram að dómnefnd Rolf Schock-verðlaunanna hefði í rökstuðningi sínum sagt að Hannigan væri „einstakur og framsækinn flytjandi, sem nálgast tónlistina sem hún flytur með öflugum og lifandi hætti.“ Þess má geta að íslenski píanóleikarinn, Víkingur Heiðar Ólafsson, hlaut þessi sömu verðlaun fyrr á árinu.