Poppprinsessan Shakira og spænska fótboltastjarnan Gerard Pique eru sögð vera að skilja. Greint hefur verið frá því að parið hafi verið aðskilið síðustu vikur en Shakira er sögð hafa beðið Pique að yfirgefa heimilið eftir að hafa komist að framhjáhaldi hans við aðra konu.
Sögusagnir herma að Shakira hafi gómað Pique inni í svefnherbergi þar sem hann stundaði kynlíf með annarri konu. Í kjölfarið hafi Shakira meinað honum aðgang að heimili þeirra en síðan þá hefur mikið partístand verið á Pique, eftir því sem fram hefur komið á spænsku útvarpsstöðinni El Periodico. Fréttamiðillinn Daily Star greindi frá.
„Shakira hefur tekið þá ákvörðun að skilja. Þannig standa málin. Þetta er það sem gerðist og þess vegna heldur hún fjarlægð,“ er haft eftir fjölmiðlamanninum Emilio Pérez de Rozas sem virðist hafa öruggar heimildir fyrir yfirvofandi skilnaði parsins.
Hvorki Shakira né Pique hafa staðfest skilnaðinn opinberlega en þau felldu hugi saman fyrst árið 2010 og eiga tvo drengi saman; Milan Piqué Mebarak, níu ára, og Sasha Piqué Mebara, sjö ára.