„Margir spyrja mig af hverju ég sé í hjólastól“

Nemendur í fjórða bekk í Sjálandsskóla í Garðabæ hafa síðustu daga tekið þátt í verkefninu Skólinn í stólinn. Verkefnið er afar verðugt en það snýr að því að auka skilning almennings á hindrunum sem verða á vegi fatlaðra einstaklinga á degi hverjum.

Í Sjálandsskóla eru rúmlega 200 nemendur en Bryndís Thors, nemandi í fjórða bekk, er eini nemandinn við skólann sem notar hjólastól. Hún segir mikilvægt að samnemendur hennar fái tækifæri til að setja sig í spor hennar og annarra sem nota hjólastól með því að fá að prófa að takast á við ýmsa hversdagslega hluti í hjólastól.

„Ég held þetta sé bara ógeðslega skemmtilegt fyrir þá [samnemendurna] og ógeðslega fræðandi fyrir þau að fá að prófa. Það að fá að læra eitthvað nýtt er miklu betra,“ segir Bryndís Thors sem fæddist með heilkenni sem nefnist Cerebral Palsy og er algengasta tegund hreyfihömlunar.

„Stundum eru margir að spyrja mig af hverju ég sé í hjólastól og ég bara svara því,“ segir Bryndís sem óhætt er að segja að sé bæði skelegg og lífsglöð stúlka.

Mikilvægt að reyna að mæta þörfum allra

Mikið líf og fjör einkennir Sjálandsskóla í Garðabæ en þó var sérlega mikið stuð innan veggja skólans í framhaldi af verkefninu Skólinn í stólinn. Tónlistarmaðurinn Jón Jónsson lét sig ekki vanta og söng og spilaði nokkur lög fyrir nemendur og starfsfólk skólans þar sem hann sat í hjólastól allan tímann og var þar af leiðandi virkur þátttakandi í verkefninu. 

Sesselja Þóra Gunnarsdóttir, skólastjóri í Sjálandsskóla, segist ekki hafa þurft að hugsa sig tvisvar um þegar hugmyndin að verkefninu kom inn á borð til hennar. Hún segir skólann alltaf haft það að markmiði að mæta þörfum allra nemenda enda sé það stór liður í því að viðhalda skóla án aðgreiningar. 

„Nú er ég bara rétt sest í stólinn og mun svo rúlla mér inn á skrifstofu og sjá hvernig þetta gengur. Ég ætla sem sagt að vera í stólnum núna í að minnsta kosti klukkutíma og spreyta mig áfram og sjá hvernig upplifunin er,“ segir Sesselja Þóra. „Og fá að reyna þetta á eigin skinni sem er akkúrat það sem markmið verkefnisins er,“ segir hún jafnframt.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar