Klara Elías samdi fyrir The Kardashians

Klara Elías hefur haft nóg fyrir stafni upp á síðkastið …
Klara Elías hefur haft nóg fyrir stafni upp á síðkastið en hún starfar við lagasmíðar og hefur samið mikið af tónlist sem notuð hefur verið í raunveruleikaþætti. Tónlist hennar hefur til að mynda heyrst í The Kardashians, sem eru með vinsælustu raunveruleikaþáttum heims. Samsett ljósmynd: Aðsend/Hulu

Tónlistarkonan Klara Elías hefur haft nóg fyrir stafni upp á síðkastið í tónlistinni en hún hefur síðastliðin sex ár einbeitt sér að lagasmíðum fyrir bæði annað tónlistarfólk og sjónvarpsþætti. Hefur tónlist hennar heyrst í ýmsum raunveruleikaþáttum á við nýjustu seríu af The Kardashians, Love Island og Queer Eye for the Straight Guy. Hún fékk að auki þann heiður að semja og flytja þjóðhátíðarlag ársins sem kom út á mánudaginn, 7. júní, lagið Eyjanótt sem er til þess fallið að gefa hverjum sem á það hlýðir gæsahúð.

Klara ræddi um líf og störf í morgunþættinum Ísland vaknar í gær, við þau Kristínu Sif, Ásgeir Pál og Jón Axel. Hún sagði frá því hvers vegna hún ákvað að flytja aftur til Íslands eftir að hafa búið og starfað í Bandaríkjunum um árabil.

Klara Elias flutti til Íslands fyrir um einu og hálfu …
Klara Elias flutti til Íslands fyrir um einu og hálfu ári síðan eftir 11 ár í Los Angeles. Hún nýtur þess að geta unnið við tónsmíðar frá Íslandi. Ljósmynd/Stefanie Moser

Sneri sér að lagasmíðum

„Þetta er bara það sem ég geri. Ég var búsett erlendis, bjó í Los Angeles í nærri 11 ár. Fyrri hluta ferilsins var ég í stelpubandinu Nylon sem síðar fékk nafnið The Charlies. Við vorum að syngja og koma fram saman. Svo sneri ég mér algjörlega og bara alfarið að því semja og er búin að vera að semja fyrir aðra, fyrir sjónvarpsþætti og fyrir annað tónlistarfólk síðustu sex ár,“ segir Klara, sem hefur búið á Íslandi í eitt og hálft ár.

Hún segir það sína upplifun að kórónuveirufaraldurinn hafi sett hlutina í samhengi fyrir marga, þar á meðal hana sjálfa.

Klara gaf út Þjóðhátíðarlag ársins á dögunum sem hún samdi …
Klara gaf út Þjóðhátíðarlag ársins á dögunum sem hún samdi sjálf og flytir en lagið ber titilinn Eyjanótt. Ljósmynd/Aðsend

Upplifði sig fasta í LA

„Ég upplifði mig svolítið fasta í borginni, Los Angeles. Allt í einu stóð ég frammi fyrir því að allt flug var að falla niður og við sáum ekki fram á að komast heim. Maður skildi þetta ekki, þetta ástand. Þetta var svo hræðilegt. Þetta var sérstaklega slæmt í Los Angeles,“ lýsir Klara. Hún segir að mikil hræðsla hafi gripið um sig víða á þessum tíma og hún hafi upplifað mikla innilokunarkennd þegar hún hélt að hún kæmist ekki heim til fjölskyldu sinnar á Íslandi.

Covid opnaði nýjar dyr

„Þessi panik tók yfir líf manns í marga mánuði,“ segir hún og játar að eins og margir aðrir hafi hún ekkert getað unnið í kringum þennan tíma.

„Tilfinningin að halda að maður komist ekki út landinu. Það er hræðilegt,“ segir Klara, sem flaug til Íslands um leið og hún gat.

Hún þakkar þó Covid fyrir að hafa opnað sér nýjar dyr í tónlistarbransanum og möguleikar opnuðust fyrir hana til að vinna fjarvinnu frá Íslandi.

„Strax í covidinu færðist öll lagahöfundavinna yfir á netið,“ segir Klara og lýsir því hvernig hún þurfti skyndilega að læra að vinna meira sjálfstætt, meðal annars að taka lögin sín sjálf upp heima.

Semur mikið fyrir sjónvarp

„Eins og fyrir mig, sem vinn svo mikið með pródúserum, þá var einhver annar að taka upp öll demó sem ég söng. Núna er ég fullfær um að taka upp minn eigin „vocal“. Ég syng inn og sendi út. Ég sem mikið fyrir sjónvarp. Ég átti til dæmis lag í The Kardashians-þætti fyrir nokkrum vikum,“ lýsir Klara sem segist semja tónlist mestmegnis fyrir raunveruleikasjónvarp. The Kardashians eru með vinsælustu raunveruleikaþáttum ársins en þar fá áhorfendur að fylgjast með lífi hinna ríku og frægu fjölskyldumeðlima Kardashian-fjölskyldunnar.

Nýir raunveruleikaþættir um ríku og frægu meðlimi Kardashian fjölskyldunnar hófu …
Nýir raunveruleikaþættir um ríku og frægu meðlimi Kardashian fjölskyldunnar hófu göngu sína á árinu og eru með vinsælustu raunveruleikaþáttum heims. Ljósmynd/Hulu

Horfir sjálf ekki á þættina sem tónlistin hefur komið fram í

Klara lýsir því hvernig starfinu er háttað í viðtalinu en hún semur tónlist fyrir fyrirtæki sem starfar með fjölda raunveruleikaþátta. Tónlistin sem hún semur er svo sett í banka sem framleiðendur þáttanna hafa aðgang að.

„Til dæmis Love Island, Queer Eye for the Staight Guy og alls kyns raunveruleikaþættir sem ég horfi ekki einu sinni sjálf á,“ segir Klara sem segist fá ágætis tekjur fyrir starfið, nóg til að lifa á.

Metnaður og einbeiting mikilvæg til að ná árangri

Hún tekur undir það að til þess að ná árangri í tónlistarbransanum, sem og annars staðar, þurfi maður að vera afar staðfastur í því sem maður er að gera.

„En það er þannig með allt. Það er alveg sama hvað þú tekur þér fyrir hendur; þú verður að vera metnaðarfullur og einbeittur ef þig langar að ná árangri. Þetta [tónlistarstarfið] er aðeins flóknara því þetta er ekki jafn algengt. Það eru færri leiðbeiningar og færri sem eru að segja þér hvað þú átt að gera,“ segir Klara en eins og flestir vita sló hún í gegn með hljómsveitinni Nylon nokkrum árum eftir aldamót en lög hljómsveitarinnar komust meðal annars hátt á vinsældalista í Bretlandi.

Nylon stelpurnar, þær Klara Elias, Alma Guðmundsdóttir, Emilía Björg Óskarsdóttir …
Nylon stelpurnar, þær Klara Elias, Alma Guðmundsdóttir, Emilía Björg Óskarsdóttir og Steinunn Þóra Camilla Sigurðardóttir, slógu í gegn í Bretlandi nokkrum árum eftir aldamótin 2000 og komust á vinsældarlista þar í landi árið 2006. Ljósmynd/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Hlýjar og góðar minningar af Nylon-tímabilinu

„Ég á svo hlýjar og góðar minningar frá þessum tíma og er svo þakklát fyrir að svona byrjaði ferillinn minn,“ segir Klara sem segir þó að myndirnar frá þessu tímabili séu misgóðar og uppsker hlátur í stúdíóinu.

Hlustaðu á Klöru segja frá lífi og starfi sem tónskáld, tilurð Þjóðhátíðarlagsins Eyjanóttar og flutningunum til Íslands í viðtali við Ísland vaknar á K100 í gær. Viðtalið má heyra í heild sinni hér að neðan.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Veltu fyrir þér ferðalögum eða búferlaflutningum til fjarlægra staða. Njóttu þessarar góðu tilfinningar en bíddu þó aðeins með að taka mikilvægar ákvarðanir.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Sarah Morgan
4
Karin Härjegård
5
Solja Krapu-Kallio
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Veltu fyrir þér ferðalögum eða búferlaflutningum til fjarlægra staða. Njóttu þessarar góðu tilfinningar en bíddu þó aðeins með að taka mikilvægar ákvarðanir.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Sarah Morgan
4
Karin Härjegård
5
Solja Krapu-Kallio
Loka