Vítalía Lazareva er búin að eyða aðgangi sínum á Twitter.
Virðist sem brotthvarf hennar af samfélagsmiðlinum kunni að skjóta skökku við, því í síðustu viku skrifaði hún athyglisverða færslu í kjölfar frétta af starfslokum Eggerts Þórs Kristóferssonar, forstjóra hjá félaginu Festi hf.
Bar Vítalía Eggerti góðar kveðjur og sagðist eiga honum mikið að þakka. Hefur hún hlotið mikla gagnrýni á Twitter síðustu daga vegna færslunnar.
Vítalía komst fyrst í fréttirnar fyrir að segja sögu sína af ástarsambandi sem hún átti við þjóðþekktan mann sem var kvæntur á þeim tíma. Vítalía lýsti því hvernig hópur manna, sem hefðu verið vinir mannsins, brutu á henni kynferðislega í heitum potti við sumarbústað í október árið 2020.
„Einn af þeim fáu mönnum sem talaði við mig án þess að þekkja mig, hlustaði og gaf mér tækifæri á að segja mína hlið þegar ÞMJ var búinn að leggja allt aðra sögu á borðið hjá stjórninni.
Ég á Eggerti mikið að þakka og ég vona að hann viti það.
Þetta er spilling og ekkert annað,“ skrifaði Vítalía á Twitter hinn 4. júní síðastliðinn.
Þegar leitast var eftir frekari viðbrögðum Vítalíu við brotthvarfi hennar á Twitter sagðist hún ekki hafa neinu að miðla þar framar.