Ástralska leikkonan Rebel Wilson er komin út úr skápnum. Fyrr í vikunni kynnti hún aðdáendum fyrir nýju kærustunni sinni, Ramona Agruma á Instagram reikningi sínum.
„Ég hélt alltaf að ég væri að leita að Disney prins... en kannski var það sem ég virkilega þurfti Disney prinsessa,“ skrifaði Wilson við myndina.
Í maí greindi Wilson frá því í fjölmiðlum að hún væri í hamingjusömu sambandi, en gaf ekki upp hver maki hennar væri. Hún sagðist hafa notast við stefnumótaforrit í leit að ástinni, en var á endanum kynnt fyrir nýju ástinni í gegnum sameiginlegan vin.
Parið hefur þó ekki verið í felum, en Wilson tók Agruma sem gest sinn á Vanity Fair Óskarsveisluna í mars. Þar að auki fóru þær í langa helgarferð í apríl þar sem þær sóttu viðburð saman, en flestir töldu þær þó bara vera vinkonur.