Í nýlegri Netflix heimildarmynd Jennifer Lopez segist söngkonan hafa verið ósátt við þær fregnir að hún myndi deila sviði með Shakiru í hálfleik Ofurskálarinnar 2020. „Það er versta hugmynd í heimi að láta tvo einstaklinga koma fram á Ofurskálinni. Þetta er versta hugmynd í heimi,“ sagði Lopez við NFL-deildina.
Lopez var óánægð með tímann sem þær fengu. „Við þurfum að fá okkar tíma til að syngja, þetta á ekki bara að vera eitthvað dansatriði. Við þurfum að fá að syngja skilaboðin okkar,“ sagði hún.
Þrátt fyrir að vera báðar að koma fram fengu þær aðeins 12 mínútur. Í samræðum við Shakiru segir Lopez að þær muni skipta tímanum á milli sín. „Við hefðum átt að fá 20 mínútur fyrst við erum tvær.“
Heimildarmynd Lopez Halftime mun koma inn á streymisveituna Netflix hinn 14. júní næstkomandi.