Leikarinn Philip Baker Hall er látinn, 90 ára að aldri. Hall átti langan feril sem karakterleikari, en hann er einna þekktastur fyrir að hafa leikið bókasafnslögguna Bookman í Seinfeld-þáttunum á 10. áratugnum.
Hall lést í gær. 12. júní, á heimili sínu í Kaliforníu, en hann hafði glímt við lungnaþembu undanfarin ár.
Hall lék aðalhlutverkið í nokkrum kvikmyndum, en hann lék meðal annars Richard Nixon, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, í mynd Roberts Altman, Secret Honor. Þá átti Hall einnig eftirminnileg aukahlutverk í myndum á borð við Boogie Nights, Say Anything, Truman Show og Magnolia, en hann var oft fenginn til þess að leika ríkisstarfsmenn, lögregluþjóna eða lögfræðinga.