Berglind Guðmundsdóttir
Víðir Sigrúnarson, yfirlæknir á Vogi, segir bataferli einstaklinga með fíknisjúkdóma ekki hefjast fyrir alvöru fyrr en að fíknimeðferð lokinni. Hann segir mikilvægt fyrir einstaklinga með fíknivanda að ljúka við meðferð á Vogi eða öðrum meðferðarúrræðum. Þar er þeim veitt verkfæri sem auka á líkurnar að ekki komi til bakslags í bataferlinu að meðferð lokinni.
„Þá er búið að taka áfengi eða vímugjafana af fólkinu og það situr uppi með taugakerfi sem er mjög illa í stakk búið til að takast á við verkefni og álag. Það getur tekið marga mánuði og upp í örfá ár, fyrir þá sem eru með alvarlegustu neysluna, að taugakerfið þeirra sé tilbúið til að takast á við flókin verkefni. Þetta er ástæða þess að það eru tíð bakslög í neyslu aftur á fyrstu mánuðunum og árunum í bataferlinu,“ segir Víðir.
Víðir segir óraunhæfar kröfur sem einstaklingar með fíknisjúkdóm eigi það til að gera til sín að meðferð lokinni, oft geta orðið þeim að falli.
„Fólk einfaldlega fer oft út í of mikið álag. Það ætlar bara að bjarga öllu. Nú er það orðið edrú og ætlar bara að fara sinna börnunum og það ætlar vinna sig upp í vinnuna sína og það ætlar að vinna meira til þess að borga skuldirnar sínar og tekst á við verkefni sem eru alltof umfangsmikil,“ lýsir Víðir og segir taugakerfi þeirra sem hafa verið í viðvarandi áfengis- og eða vímuefnaneyslu eiga erfiðara með að nýta taugaboðefni heilans til að takast á við hversdagsleikann og að haldast edrú út daginn.
Víðir er gestur Berglindar Guðmundsdóttur í Dagmálum þar sem hann ræðir áfengis- og vímuefnaneyslu Íslendinga nú á dögum og hversu miklum breytingum neyslumynstrið hefur tekið síðustu ár.