Lagið Running up that Hill eftir tónlistarkonuna Kate Bush náði í dag fyrsta sæti á vinsældalista Bretlands heilum 37 árum eftir að lagið kom út. Lagið hefur öðlast nýja frægð undanfarið þökk sé feikivinsælu Netflix-þáttunum Stranger Things.
Kate Bush, sem er í dag 63 ára, á því núna metið yfir það lag sem hefur tekið lengstan tíma að ná toppsætinu á breska vinsældalistanum, en lagið kom út 1985 og náði þá hæst þriðja sæti á vinsældalistanum. Þar að auki á Bush núna metið yfir lengsta bil á milli laga sem ná efsta sætinu, en hún gerði það síðast fyrir 44 árum með laginu Wuthering Heights sem kom út 1978.
Lag Bush hefur ekki aðeins náð vinsældum aftur í Bretlandi. Það er eins og stendur í öðru sæti á topp 50 listanum á Spotify fyrir Ísland og í þriðja sæti á lista Spotify á heimsvísu.
Kate Bush þakkaði Duffer bræðrum sem skrifa þættina Stranger Things og aðdáendum þáttanna kærlega fyrir nýjar vinsældir lagsins á vefsíðu sinni. „Þetta er allt ótrúlega spennandi! Takk kærlega fyrir allir sem hafa stutt lagið. Nú bíð ég, með öndina í hálsinum, eftir lokaþáttunum í seríunni,“ sagði Bush.
Hér fyrir neðan er hægt að sjá senuna í fjórða þætti nýjustu seríu Stranger Things þar sem lagið spilar stórt hlutverk. Eins og fyrr segir hefur senan endurvakið vinsældir lagsins. Við vörum þó þá lesendur við sem vilja ekki láta spilla fyrir sér.