Kanadíski Óskarsverðlaunaleikstjórinn Paul Haggis hefur verið handtekinn í suðurhluta Ítalíu grunaður um kynferðisbrot.
Ítalskir fjölmiðlar greindu frá þessu í gær.
Að sögn saksóknara var leikstjórinn og handritshöfundurinn handtekinn grunaður um kynferðisbrot og líkamsárás gagnvart ungri erlendri konu. Hann neitar sök.
Haggis, sem var handritshöfundur og framleiðandi Óskarsverðlaunamyndarinnar Crash átti að taka þátt í kvikmyndahátíðinni Allora Fest í borginni Ostuni í héraðinu Brindisi.
Meint fórnarlamb hafði verið með Haggis dagana á undan hátíðinni og er hann sakaður um að hafa nauðgað henni.
Fjögur ár eru liðin síðan fjórar konur sökuðu Haggis um kynferðislega áreitni eða ofbeldi.