Hlaut verðlaun í Prag

Steinunn Birna með verðlaunin og við hlið hennar óperustjóri Óperunnar …
Steinunn Birna með verðlaunin og við hlið hennar óperustjóri Óperunnar í Leipzig, Tobias Wolf.

Íslenska óperan hlaut um helgina verðlaun á vegum Samtaka Evrópskra óperuhúsa, Opera Europa, og Fedora, í flokki sem nefnist New stage. Opera Europa eru regnhlífarsamtök allra óperuhúsa í Evrópu og Fedora er einn af bakhjörlum samtakanna og hlýtur styrki frá Evrópusambandinu árlega til að úthluta til valinna óperuverkefna, að sögn Steinunnar Birnu Ragnarsdóttur óperustjóra. Hún tók við verðlaununum fyrir hönd Íslensku óperunnar við hátíðlega athöfn í Rudolfinum-tónlistarhúsinu í Prag í Tékklandi á laugardag.


Sjálfbærni og þróun


Verðlaunin voru veitt í flokknum „Next stage“ og voru 48 listastofnanir frá 16 löndum tilnefndar fyrir 15 verkefni sem eiga það sameiginlegt að móta framtíð óperulistformsins og stuðla að sjálfbærni óperustofnana í framtíðinni. Verkefnið sem hlaut verðlaunin er samstarfsverkefni Íslensku óperunnar og Óperunnar í Leipzig og segir Steinunn Birna að hin tilnefndu verkefni hafi öll verið samstarfsverkefni. Verkefni Íslensku óperunnar og Óperunnar í Leipzig heitir „sustainable costumes“ eða sjálfbærir búningar og felst í þróun kerfis sem miðar að því að skrásetja búninga og búa til hringrásarhagkerfi, að sögn Steinunnar Birnu.

Hún segir mikla þörf á slíku kerfi þar sem óperuhús sitji á miklum söfnum búninga sem verði aldrei notaðir aftur. „Sumir af þessum búningum eru höfundarréttarvarðir og það þarf að gera þetta hárrétt þannig að við höfum með okkur mjög fært fólk,“ segir Steinunn Birna. Verðlaunin sem verkefnið hlaut gera það að verkum að það er nú að fullu fjármagnað. „Það er rosalega mikill heiður og líka hvatning,“ segir Steinunn Birna.

Agnes haustið 2024


Við sama tilefni um helgina var tilkynnt að ný ópera, Agnes, sem Íslenska óperan pantaði af tónskáldinu Daníel Bjarnasyni, er tilnefnd til eftirsóttra verðlauna, Fedora Opera Price. Óperan sú verður frumsýnd haustið 2024 og fjallar um síðustu aftökuna á Íslandi, 12. janúar árið 1830, en þá voru tekin af lífi Agnes Magnúsdóttir, vinnukona á Illugastöðum, og Friðrik Sigurðsson, bóndasonur frá Katadal. Voru þau dæmd til dauða fyrir morð á tveimur mönnum. „Hún er tileinkuð öllum konum sem ekki hafa rödd í eigin örlögum. Hún fékk aldrei að segja sína sögu,“ segir Steinunn Birna um Agnesi. „Þetta var fyrsta hugmyndin sem ég fékk þegar ég tók við þessu starfi eða markmið, að koma þessari sögu í óperu sem er að verða að veruleika. Það er mikill alþjóðlegur áhugi á þessari óperu, sem er mjög gleðilegt.“
En hvað er óperan langt komin? Steinunn Birna segir allri rannsóknarvinnu lokið, líbrettóið – eða öllu heldur fyrsta útgáfa af því – tilbúið og búið að leiklesa það og Daníel á fullu að semja. Líbrettóið skrifar þekktur kanadískur höfundur, Royce Valvek, sem hefur skrifað líbrettó fyrir fjölda ópera, m.a. JFK, Breaking the Waves og Dog Days.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þér er að takast að koma skikki á hlutina og átt hrós skilið fyrir allt það erfiði sem þú hefur lagt á þig. Mundu að vinir og vandamenn eru sú stoð sem gott er að hafa.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Torill Thorup
5
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þér er að takast að koma skikki á hlutina og átt hrós skilið fyrir allt það erfiði sem þú hefur lagt á þig. Mundu að vinir og vandamenn eru sú stoð sem gott er að hafa.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Torill Thorup
5
Birgitta H. Halldórsdóttir
Loka