Sandra Bullock segist vera komin í hlé frá leiklistinni. Hún segist vera í kulnun og þurfi að stjórna tíma sínum sjálf. Síðustu ár hafi hún upplifað mikla þreytu og sé komin að endastöð.
„Ég er alveg útbrunnin. Ég er svo þreytt. Ég er ekki fær um að taka heilbrigðar ákvarðanir og ég veit það.“
„Vinnan hefur alltaf verið stöðug í mínu lífi og ég er mjög lánsöm. Ég áttaði mig á að kannski væri vinnan orðin einhvers konar hækja. Líkt og að vera alltaf að opna ísskápinn og leita að einhverju sem er ekki til,“ sagði Bullock í viðtali við Entertainment Tonight og sagðist hafa þurft að eiga samtal við sjálfa sig um velgengnina almennt.
„Ég sagði við sjálfa mig, hættu að leita að velgengninni hér, því hún er ekki hér. Þú býrð við velgengni hér og nú. Vertu sátt við að þurfa ekki sífellt að vinna til þess að finnast þú skipta máli.“
Bullock segist ekki vita hvort hún muni nokkurn tímann leika aftur en næst má sjá hana leika í myndinni Bullet Train.