Sænski áhrifavaldurinn og fjölmiðlakonan, Katrin Zytomierska, sneri vörn í sókn á dögunum og lét spænska knattspyrnumanninn, Gerard Piqué, hafa það óþvegið eftir að hann neitaði að heilsa ungum aðdáanda sem jafnframt er sonur Zytimierska.
Í hefndarskyni deildi Zytomierska mynd af Piqué á Instagram þar sem hann var staddur á skemmtistað og var með ljóshærða huldukonu í fanginu. Myndinni deildi hún í reiðikasti og í kjölfarið á sögufregnum af meintu framhjáhaldi Piqué en hann var í ástarsambandi við poppprinsessuna Shakiru um margra ára skeið.
„Hlustaðu á mig auminginn þinn. Líklega langaði flestar stelpur sem voru í þessu partíi til að sænga hjá þér. Ég sá þig og hugsaði um leið til sonar míns. Ég var skýr við þig og bað þig um að skila kveðju til sonar míns. Þú sagðir nei. Hvers vegna? Af því að þú ert gaur sem kann að sparka í bolta? Þetta heillar mig ekki mikið. Það sem veldur mér sorg er að frægðin hefur náð inn í hausinn á þér og það er glatað,“ skrifaði Zytomierska við myndafærsluna sem hafði ratað í heimspressuna áður en Zytomierska ákvað að eyða færslunni.
„En veistu hvað, karma mun bíta þig í rassinn,“ skrifaði hún jafnframt og beindi orðum sínum að því hversu hrokafullur hann væri orðinn og ekki síður að framhjáhaldinu.