Selling Sunset-stjarnan og fasteignasalinn Maya Vander mun ekki taka þátt í sjöttu þáttaröð vinsælu Netflix þáttanna. Vander hafði starfað hjá fasteignasölunni Oppenheim Group frá árinu 2015 og selt glæsihýsi í Netflix þáttaröðum Selling Sunset frá árinu 2019.
Vander var ein af fyrstu leikurum þáttanna, en heimildarmaður TMZ segir Vander ætla að einbeita sér að fjölskyldu sinni og að byggja upp fasteignaviðskipti í Miami, Flórída þar sem hún er búsett.
Vander er sögð þakklát fyrir tíma sinn í þáttunum, en segir ferðirnar milli Miami og Los Angeles hafi reynst erfiðar, sérstaklega þar sem hún er með ung börn.
Á dögunum deildi Vander átakanlegum fréttum, en hún missti nýverið fóstur aðeins sex mánuðum eftir að hún fæddi andvana son og er það talið hafa haft áhrif á ákvörðun hennar að segja skilið við Selling Sunset.