Þolið þér storma, frú Norma?

Ana de Armas sem Marilyn Monroe í Blonde.
Ana de Armas sem Marilyn Monroe í Blonde. Netflix

Marilyn Monroe er mönnum enn yrkisefni, 60 árum eftir andlátið. Í væntanlegri kvikmynd, Blonde, sækir leikstjórinn Andrew Dominik þó meira í ræturnar, alþýðustúlkuna Normu Jeane Mortensen. 

Ana de Armas segir ekki margt í stiklunni fyrir Blonde, sem kom fyrir sjónir almennings á dögunum, en speglar sig, setur upp kvíðafullan svip og flissar á endanum þeim mun meira meðan förðunarmeistarinn breytir henni úr Normu Jeane Mortensen í Marilyn Monroe. Það rímar við yfirlýsingar leikstjórans, Andrews Dominiks, þess efnis að handrit þessarar nýjustu kvikmyndar hans sé ekki þrútið af samtölum, heldur sé saga Marilyn Monroe sögð gegnum holskeflu myndbrota og atburða.

„Hvers vegna er Marilyn Monroe stærsta kveníkon 20. aldarinnar?“ spurði hann þegar hann kynnti verkefnið fyrst árið 2010. „Karlar girnast hana kynferðislega og telja sig nauðsynlega þurfa að bjarga henni meðan konur sjá kristallast í henni allt ranglætið sem hellst hefur yfir kyn þeirra gegnum tíðina, systur eða Öskubusku sem er dæmd til að lifa og hrærast í öskustónni.“

Sjálfur er hann ekki með kvikmyndastjörnuna og kyntáknið eilífa Marilyn Monroe í brennidepli í ævintýrinu, heldur Normu Jeane, litla munaðarleysingjann sem týndist í frumskógi Hollywood og glansmyndin gleypti með húð og hári.

Hann tekur sér líka skáldaleyfi, eða öllu heldur fær það að láni hjá rithöfundinum Joyce Carol Oates, en myndin byggist á samnefndri skáldsögu hennar frá árinu 2000.

Marilyn Monroe átti ekki sjö dagana sæla þrátt fyrir mikla …
Marilyn Monroe átti ekki sjö dagana sæla þrátt fyrir mikla frægð og vinsældir. AFP


Máir út mörk staðreynda og skáldskapar

„Myndin endurskoðar með djörfum hætti líf einnar skærustu og lífseigustu stjörnu Hollywood, Marilyn Monroe,“ segir á vefsíðu efnisveitunnar Netflix en þar verður myndin frumsýnd 23. september. „Allt frá brotinni æsku hennar sem Norma Jeane, gegnum ris hennar sem stjörnu og allar ástarflækjurnar, máir Blonde út mörk staðreynda og skáldskapar til að freista þess að skilja breiða gjána milli opinberu persónunnar og einkasjálfs hennar.“

Ana de Armas segir sýn leikstjórans hafa verið skýra frá upphafi – að sýna fólki líf Marilyn Monroe frá hennar eigin sjónarhóli. „Hann vildi að fólk upplifði ekki aðeins hvernig það var að vera Marilyn, heldur líka Norma Jeane. Hvað mig varðar þá er það áræðnasti og femínískasti snúningur á sögu hennar sem ég þekki, og án allra afsakana,“ segir hún í samtali við Netflix Queue.

De Armas kveðst hafa unnið að myndinni tímunum saman á hverjum einasta degi í hér um bil ár. „Ég las skáldsögu Joyce, rýndi í hundruð ljósmynda, myndbanda, hljóðritana og kvikmynda – allt sem ég mögulega komst yfir. Hver einasta sena er innblásin af ljósmynd sem er til. Við svitnuðum yfir sérhverju smáatriði á ljósmyndinni og skeggræddum hvað væri í raun og sann að gerast á henni. Fyrsta spurningin var alltaf sú sama: „Hvernig leið Normu Jeane hérna?“ Okkur langaði að ná utan um mennskuna í sögu hennar. Frægðin gerði Marilyn sýnilegustu manneskju í heimi en Normu um leið þá ósýnilegustu.“

Nánar er fjallað um Blonde, Marilyn Monroe og Önu de Armas í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Tafir, ruglingur og samskiptaörðugleikar í vinnunni munu setja svip sinn á þennan mánuð. En aðrir sjá ekki öll mál í sama ljósi og þá er það þolinmæðin sem gildir.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Tafir, ruglingur og samskiptaörðugleikar í vinnunni munu setja svip sinn á þennan mánuð. En aðrir sjá ekki öll mál í sama ljósi og þá er það þolinmæðin sem gildir.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar