„Það er mikil stemning fyrir tónleikunum og stefnir í fullt hús,“ segir Helgi Þórsson, forsprakki Helga og Hljóðfæraleikaranna (H&H), en endurútgáfu plötunnar Endanleg hamingja á vínil, sem upphaflega kom út 1998, verður fagnað á Verkstæðinu á Akureyri föstudaginn 8. júlí. Platan er nýkomin á Spotify og hefur fengið fínar viðtökur, að sögn Helga, sérstaklega hjá gömlum aðdáendum. Væntanlegur vínill verður tvöfaldur því platan er svo löng.
Auk Helga skipa sveitina Bergsveinn Þórsson, Brynjólfur Brynjólfsson, Hjálmar Brynjólfsson og Atli Már Rúnarsson. Til að fullkomna stemninguna verða allir hljóðfæraleikararnir sem tóku þátt í að gera plötuna með á tónleikunum og við bætast Kristín Þóra Haraldsdóttir tónskáld á fiðlu og Gunnur Ýr Stefánsdóttir á þverflautu.
Endanleg hamingja og önnur plata, Meira helvíti frá 2004, koma báðar út á vínil með haustinu í gegnum útgáfufyrirtæki H&H, Blóðörn að Baki, en RPM Records framleiðir. „Eins og nöfnin á plötunum gefa til kynna er himinn og haf á milli Endanlegrar hamingju og Meira helvítis,“ segir Hjálmar liðsmaður H&H. „Annars vegar þjóðlagastemning, folk/country eða hvernig sem það er skilgreint, sem sagt ljúfur spilverksfílingur. Hins vegar harðsvírað argasta rokk. Eins og það sé stutt þarna á milli. En allt spratt úr sama ranni og sama fólk á bak við þetta.“