„Latasta kona Bretlands“ verður 75 ára

Kamilla hertogynja verður 75 ára. Hún hefur upplifað tímanna tvenna …
Kamilla hertogynja verður 75 ára. Hún hefur upplifað tímanna tvenna hvað fjölmiðlaumfjöllun varðar. AFP

Kamilla hertogynja af Cornwall fagnar 75 ára afmæli í mánuðinum. Fáir hafa upplifað jafnmikinn viðsnúning í fjölmiðlaumfjöllun og hún. Hún var á tímabili kölluð öllum illum nöfnum fyrir að hafa átt þátt í skilnaði Karls Bretaprins og Díönu prinsessu en nú þykir hún standa sig með prýði sem eiginkona prinsins og verðandi drottning (queen consort). The Times fór á dögunum yfir þróun fjölmiðlaumfjöllunarinnar sem hún hefur mátt sæta síðustu ár.

Óvinsælasta konan í Bretlandi

Árin eftir dauða Díönu prinsessu var Kamilla jafnan kölluð óvinsælasta kona Bretlands í breskum fjölmiðlum og á tímabili var það óvíst hvort hún gæti nokkurn tímann gifst Karli Bretaprins. „Á tímabili var það þeirra helsta ósk að geta bara farið í leikhús saman,“ segir konunglegur sérfræðingur.

Kamilla hertogynja elskar að vera í garðinum. Þessa mynd tók …
Kamilla hertogynja elskar að vera í garðinum. Þessa mynd tók tengdadóttir hennar Katrín hertogynja í tilefni af afmæli hennar. Skjáskot/Instagram

Lata Kamilla

Þá var mjög neikvæð mynd dregin upp af Kamillu í fjölmiðlum þar sem hún var sögð afar löt. Hún hafði aldrei gegnt alvöru starfi og vildi bara hanga heima. Mark Bolland skrifaði í The Sunday Times að hann efaðist um að hún myndi láta til sín taka sem maki Karls Bretaprins. „Mér þykir einstaklega vænt um Kamillu en hún er óskaplega löt (á besta hátt). Fjölskyldumeðlimur lýsti henni eitt sinn sem lötustu konu sem fæðst hefur á Englandi. Það mun ekki breytast...hún hefur aldrei unnið í lífi sínu og þolir ekki að vera í sviðsljósinu.“

Nú þykir Kamilla harðdugleg þar sem hún sinnir fjölmörgum góðgerðamálum og hefur auk þess sett á fót bókaklúbb á netinu sem þykir afar vinsæll. Drottningin sem áður forðaðist öll samskipti við Kamillu er nú hennar dyggasti stuðningsmaður og hefur mælst til þess að Kamilla verði titluð Queen Consort þegar Karl erfir krúnuna.

„Fyrir konu sem hefur aldrei verið í vinnu neins staðar þá er þetta allt saman miklu meiri vinna en hún er vön. Hún hefur þurft að skipta algerlega um gír. Almennt vill hún bara vera að dunda sér í garðinum og horfa á sjónvarpið í náttfötum. En lífið hefur gripið í taumana og nú vinnur hún sleitulaust að málefnum sem hún hefur áhuga á. Hún hefur komið öllum á óvart. Hún kann samt að slaka vel á á milli verkefna og passar upp á að hún og Karl fari alltaf í gott frí.“

 Blóðugir fjölmiðlar

„Fjölmiðlarnir voru blóðugir,“ segir vinkona Kamillu. „Fólk lét andúð sína aldrei í ljós fyrir framan hana en á tímabili vildi hún ekki fara út á meðal fólks af ótta við að illa yrði komið fram við hana. Þegar fjölmiðlaumfjöllunin var hvað verst þá fór hún í mikið uppnám og grét. Þetta var mjög erfitt fyrir hana.“

Kamilla virðist njóta þess að sinna sínum konunglegu störfum.
Kamilla virðist njóta þess að sinna sínum konunglegu störfum. AFP

Hefur unnið á

Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá. Fyrst þegar Kamilla tók við konunglegum störfum þá var hún mjög stressuð. „Hver yrði ekki stressaður? En hún er ekki týpan sem óttast lífið. Hún hélt haus. Hún er afar skynsöm kona og lagði mikið á sig við að vingast við fjölmiðla og beindi sjónum sínum sérstaklega að The Daily Mail sem hafði alltaf gagnrýnt hana mest.“

Kamilla lagði áherslu á að vera hún sjálf. „Málið er að hún hefur ekkert breyst. Hún er ensk sveitakona úr efri stétt. En hún er mjög jarðbundin og hefur góðan húmor. Hún missir sjaldan stjórn á sér og setur hlutina í heilbrigt samhengi. Hún hefur verið mjög samkvæm sjálfri sér og fólk veitir því athygli. Þá er hún eini meðlimur konungsfjölskyldunnar sem leyfir sjálfur (selfies) með almenningi. Eitt sinn kom einhver og bað um sjálfu með henni og hún sagði bara „Hví ekki?“. Svona er hún blátt áfram og alþýðleg,“ segir Brandreth.

Almenningur hefur tekið Kamillu í meiri sátt síðustu ár enda …
Almenningur hefur tekið Kamillu í meiri sátt síðustu ár enda þykir hún mjög jarðbundin og vinaleg. AFP

Hefur fengið tíma til að aðlagast

Það hvað Karl hefur þurft að bíða lengi eftir krúnunni þykir jákvætt fyrir Kamillu. „Það hefur kannski ekki verið gott fyrir Karl að bíða svona lengi en fyrir Kamillu er það gott. Hún hefur þá fengið tíma og næði til þess að finna sinn stað innan fjölskyldunnar og sína styrkleika. Hún hefur sinnt starfi sínu vel án þess að gera mistök og náð að vinna sig upp í áliti almennings.“

Sú sem áður var kölluð latasta kona Bretlands virðist ekki ætla að kippa sig upp við enn meiri ábyrgð í framtíðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Viðvörunarbjöllur í tilfinningalífinu hringja sem mest þær mega. Nú væri gott að ræða við maka um orlof og skapandi verkefni.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Viðvörunarbjöllur í tilfinningalífinu hringja sem mest þær mega. Nú væri gott að ræða við maka um orlof og skapandi verkefni.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar