Bandaríski gítarleikarinn Carlos Santana hneig niður á tónleikum sem hann spilaði á í grennd við Detroit í Michigan í Bandaríkjunum í gær, þriðjudag. Bráðaliðar á staðnum veittu honum aðhlynningu en var hann síðar fluttur á sjúkrahús. BBC greinir frá.
Santana gaf þá skýringu á samfélagsmiðlum síðar um kvöldið að hann hefði gleymt að drekka og borða og hafi einfaldlega þornað upp og þar af leiðandi hafi liðið yfir hann.
Umboðsmaður hans, Michael Vrionis, sagði tónlistarmanninn við góða heilsu.
Þrátt fyrir góða heilsu hefur tónleikum Santana sem fara áttu fram í kvöld í Burgettstown í Pennsylvaniu verið frestað.
Santana hefur verið á tónleikaferðalagi með hljómsveit sinni Miraculous Supernatural í Norður Ameríku undanfarna mánuði. Hann er einn af frægustu gítarleikurum síðustu aldar og sagði tónlistarmaðurinn Prince hann spila betur en Jimi Hendrix.