Smáskífa með nýrri endurupptöku af laginu Blowin' in the Wind eftir Bob Dylan seldist fyrir um 246 milljónir króna á uppboði í Lundúnum á Bretlandi í gær. Lagið kom fyrst út árið 1963 en nú er um að ræða einstaka endurupptöku eftir Dylan. BBC greinir frá.
Uppboðshúsið Christie's sá um uppboðið á smáskífunni en það stóð yfir í aðeins fjórar mínútur, eða jafn lengi og það tekur að spila lagið. Forsvarsmenn Christie's höfðu spáð því að skífan myndi seljast fyrir um 100 til 160 milljónir króna en greinilegt er að meiri áhugi var á laginu.
Nafn þess sem hreppti smáskífuna hefur ekki verið gert opinbert.
Smáskífan er framleidd með sérstakri tækni sem einkaleyfi er á, og er lagið sagt vera í mun betri gæðum á henni heldur en á hefðbundnum vínil.
Fáir munu heyra þessa einstöku útgáfu af laginu en kaupandi smáskífunnar hefur ekki heimild til að dreifa henni eða fjöldaframleiða.