Veturliði Snær Gylfason, starfsmaður á Bókasafni Ísafjarðar, setti á dögunum saman þemahillu á bókasafninu með bókum sem hafa verið til umfjöllunar í hlaðvarpsþáttunum Draugar fortíðar.
Veturliði er ötull hlustandi þáttanna og hefur bókalistinn fengið góðar viðtökur í umræðuhópi hlaðvarpsins á Facebook.
„Ég óskaði eftir því við yfirbókavörðinn hvort ég mætti ekki útbúa nýja þemahillu og nefndi að ég væri að hlusta á þetta hlaðvarp, Drauga fortíðar og að þeir fjölluðu oft um skemmtilegar bækur sem væri hægt að gera eitthvað úr. Henni leist vel á þessa hugmynd og gaf mér fullt leyfi til þess að gera þetta,“ segir Veturliði í samtali við mbl.is.
Í Draugum fortíðar fjalla tónlistarmennirnir Flosi Þorgeirsson og Baldur Ragnarsson um allt milli himins og jarðar með sagnfræðilegu ívafi. Flosi, sem margir kannast eflaust við úr hljómsveitinni HAM, hefur lagt stund á sagnfræði við Háskóla Íslands og segir Baldri frá einu og öðru úr mannkynssögunni. Efni þáttanna hefur oft beina tilvísun í bækur, sjálfsævisögur sem og önnur rit og því kjörið tækifæri að taka saman bækur úr þáttunum.
„Ég byrjaði á að grafa upp Harmsögu æfi minnar, sem var efni síðasta þáttar, upp úr kjallaranum. Elstu bækurnar sem eru í lítilli umferð eru geymdar þar, og því miður var hún komin í þann flokk. Alveg þangað til Flosi og Baldur vörpuðu kastljósi á hana,“ segir Veturliði.
Veturliði tók verkefnið ekki of alvarlega og tók einfaldlega saman þær bækur sem hann mundi eftir og renndi svo í gegnum Spotify til að finna fleiri bækur. Sjálfur hefur hann mikinn áhuga á sagnfræði og þekkti því sagnfræðibækur safnsins vel. Einnig tíndi hann til nokkrar sjálfsævisögur eins og Fátækt fólk eftir Tryggva Emilsson.
Flosi las upp úr Fátækt fólk fyrir Baldur í mars á síðasta ári og naut þátturinn mikilla vinsælda. Í kjölfarið var svo bókin illfáanleg á mörgum bókasöfnum landsins. Nú er sömu sögu að segja um Harmsögu æfi minnar sem hefur eflaust líka verið í kjöllurum í fleiri bókasöfnum landsins. Þannig sagði Hrönn Björgvinsdóttir, starfsmaður á Amtbókasafninu á Akureyri, frá því fyrr í vikunni á umræðuhóp Drauganna, að í fyrsta sinn í fjölda ára væri bið eftir bókinni á safninu
Hilluna setti Veturliði upp á miðvikudag og birti mynd af henni í umræðuhópnum sama dag. Bjóst hann ekki við þeim viðbrögðum sem hann hefur fengið en hillan er komin með vel á söunda hundrað læka og hafa Baldur og Flosi báðir þakkað honum fyrir framtakið.
Veturliði var ekki við vinnu á bókasafninu þegar blaðamaður náði tali af honum en gerði sér það í hugarlund að samstarfsfólk hans á Bókasafninu á Ísafirði hafi lánað út nokkrar bækur úr hillunni fyrir helgina.
Áhugasamir geta fundið Drauga fortíðar á hlaðvarpsvef mbl.is.
Listi yfir bækurnar í þemahillunni