Margir muna enn eftir sjónvarpsþáttunum vinsælu The Cosby Show sem sýndir voru á níunda áratug síðustu aldar. Þættirnir fjölluðu um fimm barna fjölskyldu þar sem grínistinn Bill Cosby var hinn dæmigerði fjölskyldufaðir. Yngsta barnið var leikið af Raven-Symoné og bræddi hún hug og hjörtu áhrofenda í viku hverri.
Í dag er Raven-Symoné 36 ára og enn í bransanum. Hún starfar sem leikkona, söngkona og lagahöfundur. Hún hefur hlotið fjölmörg verðlaun og viðurkenningar fyrir störf sín og gengur almennt vel í lífinu.
Raven-Symoné kynntist eiginkonu sinni Miröndu Pearman Maday árið 2015 og þær giftust árið 2020. Pearman-Maday er menntuð sem „doula“ eða ljósmóðir.
Raven-Symoné hefur verið opinská um tíma sinn sem barnastjarna og segir það hafi oft á tíðum verið erfitt og mikið sett út á holdafar hennar. Hún minnist þess þegar hún mátti ekki borða á meðan á upptökum stóð þrátt fyrir að vera aðeins sjö ára.
„Ég man að það var borð fullt af mat en ég mátti ekki einu sinni fá mér beyglu. Þá var mér sagt að ég væri að verða of feit. Ég var bara sjö ára.“
Þegar tími The Cosby Show var liðinn þá lék hún í unglingaþáttunum That´s so Raven sem urðu afar vinsælir en hún var stöðugt gagnrýnd fyrir vaxtalag sitt.