Sagan sögð á ný fyrir nýja kynslóð

History of Icelandic Literature Vol. IV eftir Hallgrím Helgason. Fyrirmyndin …
History of Icelandic Literature Vol. IV eftir Hallgrím Helgason. Fyrirmyndin er ljósmynd frá Nóbelsverðlaunahátíðinni.

Í umsögn Ragnheiðar Birgisdóttir um hið nýja íslenska bókmenntasögurit, Íslenskar bókmenntir: Saga og samhengi, segir að verkið sé auðlesið og aðgengilegt án þess að einfaldað sé um of:

Í upphafi þessa árs kom út ný íslensk bókmenntasaga og ber hún titilinn Íslenskar bókmenntir: Saga og samhengi. Þetta er talsvert styttra og meðfærilegra verk en forverinn Íslensk bókmenntasaga I-V sem kom út árið 2006.

Verkinu er skipt upp í tvö bindi og í hvoru þeirra má finna þrjá langa kafla. Þannig skipta sex höfundar verkinu á milli sín og rita hvert sinn kafla, þau Ármann Jakobsson, Aðalheiður Guðmundsdóttir, Margrét Eggertsdóttir, Sveinn Yngvi Egilsson, Jón Yngvi Jóhannsson og Ásta Kristín Benediktsdóttir.

Miðlæg ritstýring hefur gert það að verkum að kaflarnir sex fara vel saman og það verða engin óþarflega skörp skil milli ólíkra hluta bókarinnar. Hver kafli er sjálfstæð eining en þó í góðu samræmi við það sem á undan og eftir kemur.

Hverjum kafla er síðan skipt í nokkra undirkafla sem hver fyrir sig hefst á því að varpað er ljósi á ákveðið ártal sem á að vera góður útgangspunktur fyrir umfjöllunina sem á eftir kemur. Þótt auðvitað megi deila um hvernig slík ártöl eru valin er þetta sniðug leið til þess að vekja áhuga lesandans og draga upp mynd af tíðarandanum.

Í inngangi verksins kemur fram að verkið sé ekki síst miðað við yngri lesendur. Textinn er auðlesinn og aðgengilegur án þess að það sé verið að einfalda um of.

Sagan og samhengið

Undirtitill verksins er „Saga og samhengi“ og eru það vel valin stikkorð til þess að lýsa verkinu.

Þegar fjallað er um bókmenntasögu er ekki hjá því komist að rekja það sem var í gangi í samfélaginu hverju sinni og hvaða áhrif það hefur á þróun bókmennta. Það kemur fyrir að mannkynssagan fái heldur mikið pláss á kostnað bókmenntanna en það er víst erfitt að segja bókmenntasöguna öðruvísi enda mikilvægt að veita bókmenntaverkunum sögulegt samhengi.

Sögulega samhengið er ekki aðeins innlent heldur eru alþjóðlegir straumar ekki síður áberandi á síðum verksins. Íslensk bókmenntasaga er ekki einangruð og íslenskar bókmenntir verða ekki til án erlendra áhrifa.

Teikning eftir Áslaugu Jónsdóttur úr Sögunni af bláa hnettinum eftir …
Teikning eftir Áslaugu Jónsdóttur úr Sögunni af bláa hnettinum eftir Andra Snæ Magnússon.

Höfundarnir hafa greinilega lagt mikið upp úr því að verkið flæði vel og veki áhuga og tekst þeim vel upp. En lesi maður verkið ekki frá a til ö og kynnist því þannig vandlega getur maður orðið ofurlítið áttavilltur. Skáldleg kaflaheitin vekja til dæmis vissulega áhuga en þau gera manni erfitt fyrir ef leita á uppi einstök atriði.

Með þessu verki þarf helst góðan kennara sem getur aðstoðað nemendur við að greina aðalatriðin frá aukaatriðum og komið í veg fyrir að þeir týnist í flaumnum. Verkinu fylgir þó góð atriðisorðaskrá. Hana er að finna aftast í seinna hefti verksins en gagnlegt hefði verið að hún væri í báðum heftunum.

Það er greinilegt að verkið er skrifað á öðrum eða þriðja áratug 21. aldar. Söguskoðun dagsins í dag skín í gegn. Þær fáu konur sem vitað er um að hafi átt þátt í bókmenntasögunni framan af fá það pláss sem þeim sæmir, ekki aðeins kvenhöfundar og heldur einnig eiginkonur háttsettra karla sem höfðu áhrif á bókmenningu landsins. Þá er auknu kynfrelsi og innkomu Samtakanna ‘78 gerð ágæt skil.

Eins eru kenningar sem eru áberandi innan bókmenntafræði samtímans, t.d. eftirlendufræði, nýttar til þess að varpa ljósi á bókmenntir sem urði til löngu áður en þær kenningar urðu til.

Höfundar bókarinnar eru ófeimnir við að draga vafamál fram í sviðsljósið og eins veigra þeir sér ekki við því að minna á að þegar bókmenntasagan er sögð fer fram val. Til dæmis varpar Jón Yngvi fram spurningum um það af hverju Halldór Laxness hefur þvílíka sérstöðu í bókmenntasögu 20. aldar og raun er og gerir tilraun til þess að svara þeim. Það er þó ekki þannig að í verkinu sé mikil uppreisn gegn þessari viðurkenndu kanónu íslenskra bókmennta. Laxness fær stærsta pláss allra höfunda í verkinu.

Klassískt en þó nútímalegt

Snæfríð Þorsteins sá um útlit verksins og það er margt gott um þá hönnun að segja. Hún hefur náð fram sannfærandi meðalvegi milli klassískrar hönnunar sem vísar í bókmenningu fyrri tíma og nútímalegrar hönnunar sem fer stefnu höfundanna um nýja nálgun á bókmenntasöguna fyrir nýja kynslóð.

Þegar um fræði- eða kennslurit er að ræða er mikilvægt að það sé læsilegt og það á sannarlega við í þessu tilfelli. Það loftar vel um textann sem gerir hann þægilegan aflestrar auk þess sem mikið magn mynda eykur aðdráttarafl verksins.

Myndirnar eru sumar upplýsandi og aðrar gefa ákveðna hugmynd um tíðarandann. Þá hafa verið valdar síður úr handritum og prentverkum allt frá verkum á borð við Konungsbók eddukvæða til ljóðabókar Kristínar Ómarsdóttur Kóngulær í sýningargluggum frá 2017. Þannig kemst saga handritanna og prentmenningarinnar sjónrænt til skila.

Handritið sem kallað er Langa-Edda hefur að geyma kafla úr …
Handritið sem kallað er Langa-Edda hefur að geyma kafla úr Snorra-Eddu.

Það sem ég hef helst út á hönnun verksins að setja er sú ákvörðun að hafa kanta bókarinnar óskorna sem á líklega að vera vísun í það hvernig frágangur á prentverki var lengi vel. Það hefur hins vegar gert það að verkum að úr heftunum hrynur hvítur salli sem er nokkuð óheppilegt.

Verkinu Íslenskar bókmenntir lýkur á því að höfundarnir sex spá fyrir um framtíð bókmenningarinnar og hvaða sess bókin muni eiga í samfélagi okkar. Þótt útgangspunktur þeirra sé ólíkur er niðurstaðan hjá þeim öllum sú sama: Bókin mun lifa.

En bókin mun ekki lifa nema við höldum áfram að tala um bækur, skrifa um bækur og einfaldlega velta þeim fyrir okkur. Þetta nýja rit um íslenska bókmenntasögu er einstaklega gott innlegg í þá mikilvægu umræðu og mun sóma sér vel í kennslustofunni og í heimahúsum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar