Sagan sögð á ný fyrir nýja kynslóð

History of Icelandic Literature Vol. IV eftir Hallgrím Helgason. Fyrirmyndin …
History of Icelandic Literature Vol. IV eftir Hallgrím Helgason. Fyrirmyndin er ljósmynd frá Nóbelsverðlaunahátíðinni.

Í um­sögn Ragn­heiðar Birg­is­dótt­ir um hið nýja ís­lenska bók­mennta­sögu­rit, Íslensk­ar bók­mennt­ir: Saga og sam­hengi, seg­ir að verkið sé auðlesið og aðgengi­legt án þess að ein­faldað sé um of:

Í upp­hafi þessa árs kom út ný ís­lensk bók­mennta­saga og ber hún titil­inn Íslensk­ar bók­mennt­ir: Saga og sam­hengi. Þetta er tals­vert styttra og meðfæri­legra verk en for­ver­inn Íslensk bók­mennta­saga I-V sem kom út árið 2006.

Verk­inu er skipt upp í tvö bindi og í hvoru þeirra má finna þrjá langa kafla. Þannig skipta sex höf­und­ar verk­inu á milli sín og rita hvert sinn kafla, þau Ármann Jak­obs­son, Aðal­heiður Guðmunds­dótt­ir, Mar­grét Eggerts­dótt­ir, Sveinn Yngvi Eg­ils­son, Jón Yngvi Jó­hanns­son og Ásta Krist­ín Bene­dikts­dótt­ir.

Miðlæg rit­stýr­ing hef­ur gert það að verk­um að kafl­arn­ir sex fara vel sam­an og það verða eng­in óþarf­lega skörp skil milli ólíkra hluta bók­ar­inn­ar. Hver kafli er sjálf­stæð ein­ing en þó í góðu sam­ræmi við það sem á und­an og eft­ir kem­ur.

Hverj­um kafla er síðan skipt í nokkra undirkafla sem hver fyr­ir sig hefst á því að varpað er ljósi á ákveðið ár­tal sem á að vera góður út­gangspunkt­ur fyr­ir um­fjöll­un­ina sem á eft­ir kem­ur. Þótt auðvitað megi deila um hvernig slík ár­töl eru val­in er þetta sniðug leið til þess að vekja áhuga les­and­ans og draga upp mynd af tíðarand­an­um.

Í inn­gangi verks­ins kem­ur fram að verkið sé ekki síst miðað við yngri les­end­ur. Text­inn er auðles­inn og aðgengi­leg­ur án þess að það sé verið að ein­falda um of.

Sag­an og sam­hengið

Und­ir­t­it­ill verks­ins er „Saga og sam­hengi“ og eru það vel val­in stik­korð til þess að lýsa verk­inu.

Þegar fjallað er um bók­mennta­sögu er ekki hjá því kom­ist að rekja það sem var í gangi í sam­fé­lag­inu hverju sinni og hvaða áhrif það hef­ur á þróun bók­mennta. Það kem­ur fyr­ir að mann­kyns­sag­an fái held­ur mikið pláss á kostnað bók­mennt­anna en það er víst erfitt að segja bók­mennta­sög­una öðru­vísi enda mik­il­vægt að veita bók­mennta­verk­un­um sögu­legt sam­hengi.

Sögu­lega sam­hengið er ekki aðeins inn­lent held­ur eru alþjóðleg­ir straum­ar ekki síður áber­andi á síðum verks­ins. Íslensk bók­mennta­saga er ekki ein­angruð og ís­lensk­ar bók­mennt­ir verða ekki til án er­lendra áhrifa.

Teikning eftir Áslaugu Jónsdóttur úr Sögunni af bláa hnettinum eftir …
Teikn­ing eft­ir Áslaugu Jóns­dótt­ur úr Sög­unni af bláa hnett­in­um eft­ir Andra Snæ Magnús­son.

Höf­und­arn­ir hafa greini­lega lagt mikið upp úr því að verkið flæði vel og veki áhuga og tekst þeim vel upp. En lesi maður verkið ekki frá a til ö og kynn­ist því þannig vand­lega get­ur maður orðið of­ur­lítið átta­villt­ur. Skáld­leg kafla­heit­in vekja til dæm­is vissu­lega áhuga en þau gera manni erfitt fyr­ir ef leita á uppi ein­stök atriði.

Með þessu verki þarf helst góðan kenn­ara sem get­ur aðstoðað nem­end­ur við að greina aðal­atriðin frá auka­atriðum og komið í veg fyr­ir að þeir týn­ist í flaumn­um. Verk­inu fylg­ir þó góð atriðisorðaskrá. Hana er að finna aft­ast í seinna hefti verks­ins en gagn­legt hefði verið að hún væri í báðum heft­un­um.

Það er greini­legt að verkið er skrifað á öðrum eða þriðja ára­tug 21. ald­ar. Sögu­skoðun dags­ins í dag skín í gegn. Þær fáu kon­ur sem vitað er um að hafi átt þátt í bók­mennta­sög­unni fram­an af fá það pláss sem þeim sæm­ir, ekki aðeins kven­höf­und­ar og held­ur einnig eig­in­kon­ur hátt­settra karla sem höfðu áhrif á bók­menn­ingu lands­ins. Þá er auknu kyn­frelsi og inn­komu Sam­tak­anna ‘78 gerð ágæt skil.

Eins eru kenn­ing­ar sem eru áber­andi inn­an bók­mennta­fræði sam­tím­ans, t.d. eft­ir­lendu­fræði, nýtt­ar til þess að varpa ljósi á bók­mennt­ir sem urði til löngu áður en þær kenn­ing­ar urðu til.

Höf­und­ar bók­ar­inn­ar eru ófeimn­ir við að draga vafa­mál fram í sviðsljósið og eins veigra þeir sér ekki við því að minna á að þegar bók­mennta­sag­an er sögð fer fram val. Til dæm­is varp­ar Jón Yngvi fram spurn­ing­um um það af hverju Hall­dór Lax­ness hef­ur því­líka sér­stöðu í bók­mennta­sögu 20. ald­ar og raun er og ger­ir til­raun til þess að svara þeim. Það er þó ekki þannig að í verk­inu sé mik­il upp­reisn gegn þess­ari viður­kenndu kanónu ís­lenskra bók­mennta. Lax­ness fær stærsta pláss allra höf­unda í verk­inu.

Klass­ískt en þó nú­tíma­legt

Snæfríð Þor­steins sá um út­lit verks­ins og það er margt gott um þá hönn­un að segja. Hún hef­ur náð fram sann­fær­andi meðal­vegi milli klass­ískr­ar hönn­un­ar sem vís­ar í bók­menn­ingu fyrri tíma og nú­tíma­legr­ar hönn­un­ar sem fer stefnu höf­und­anna um nýja nálg­un á bók­mennta­sög­una fyr­ir nýja kyn­slóð.

Þegar um fræði- eða kennslu­rit er að ræða er mik­il­vægt að það sé læsi­legt og það á sann­ar­lega við í þessu til­felli. Það loft­ar vel um text­ann sem ger­ir hann þægi­leg­an af­lestr­ar auk þess sem mikið magn mynda eyk­ur aðdrátt­ar­afl verks­ins.

Mynd­irn­ar eru sum­ar upp­lýs­andi og aðrar gefa ákveðna hug­mynd um tíðarand­ann. Þá hafa verið vald­ar síður úr hand­rit­um og prent­verk­um allt frá verk­um á borð við Kon­ungs­bók eddu­kvæða til ljóðabók­ar Krist­ín­ar Ómars­dótt­ur Kóngu­lær í sýn­ing­ar­glugg­um frá 2017. Þannig kemst saga hand­rit­anna og prent­menn­ing­ar­inn­ar sjón­rænt til skila.

Handritið sem kallað er Langa-Edda hefur að geyma kafla úr …
Hand­ritið sem kallað er Langa-Edda hef­ur að geyma kafla úr Snorra-Eddu.

Það sem ég hef helst út á hönn­un verks­ins að setja er sú ákvörðun að hafa kanta bók­ar­inn­ar óskorna sem á lík­lega að vera vís­un í það hvernig frá­gang­ur á prent­verki var lengi vel. Það hef­ur hins veg­ar gert það að verk­um að úr heft­un­um hryn­ur hvít­ur salli sem er nokkuð óheppi­legt.

Verk­inu Íslensk­ar bók­mennt­ir lýk­ur á því að höf­und­arn­ir sex spá fyr­ir um framtíð bók­menn­ing­ar­inn­ar og hvaða sess bók­in muni eiga í sam­fé­lagi okk­ar. Þótt út­gangspunkt­ur þeirra sé ólík­ur er niðurstaðan hjá þeim öll­um sú sama: Bók­in mun lifa.

En bók­in mun ekki lifa nema við höld­um áfram að tala um bæk­ur, skrifa um bæk­ur og ein­fald­lega velta þeim fyr­ir okk­ur. Þetta nýja rit um ís­lenska bók­mennta­sögu er ein­stak­lega gott inn­legg í þá mik­il­vægu umræðu og mun sóma sér vel í kennslu­stof­unni og í heima­hús­um.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Tvíburar

Sign icon Það gætu orðið einhverjar truflanir á heimilishaldinu í dag. Að því kemur að þú verður að taka ákvörðun og hefjast handa því að öðrum kosti kemur þú engu í verk.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Sofie Sar­en­brant
2
Erla Sesselja Jens­dótt­ir
3
Jill Man­sell
4
Árni Þór­ar­ins­son og Páll Krist­inn Páls­son
5
Sofie Sar­en­brant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Tvíburar

Sign icon Það gætu orðið einhverjar truflanir á heimilishaldinu í dag. Að því kemur að þú verður að taka ákvörðun og hefjast handa því að öðrum kosti kemur þú engu í verk.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Sofie Sar­en­brant
2
Erla Sesselja Jens­dótt­ir
3
Jill Man­sell
4
Árni Þór­ar­ins­son og Páll Krist­inn Páls­son
5
Sofie Sar­en­brant